5 milljarðar í húsnæðisúrræði fyrir hælisleitendur

Áætlaður húsnæðiskostnaður vegna hælisleitenda nemur hátt í 4,7 milljarða króna.
Áætlaður húsnæðiskostnaður vegna hælisleitenda nemur hátt í 4,7 milljarða króna. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Kristinn

Kostnaður við húsnæðisúrræði Vinnumálastofnunar fyrir hælisleitendur nam ríflega 4,9 milljörðum króna á síðasta ári. Áætlaður kostnaður fyrir árið 2024 er 4.679.856.536 krónur.

Athygli vekur að öryggisgæsla er dýrari kostnaðarliður en sjálf húsaleigan.

Þetta kemur fram í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins.

Öryggisgæsla ríflega 2,5 ma. króna

Kostnaðurinn við húsnæðisúrræðin er sundurliðaður í svarinu. Kostnaður við öryggisgæslu nam á síðasta ári 2.513.902.954 krónum á sama tíma og kostnaður við húsaleigu nam 2.000.444.502 krónum.

Ræsting nam ríflega 230 milljónum króna og kostnaður við verkkaup og byggingarvörur námu 116 milljónum króna.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurnina.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurnina. mbl.is/Arnþór

Stofnunin með 23 búsetuúrræði

Vinnumálastofnun er með 23 búsetuúrræði sem gistipláss fyrir 1.549 manns og öll úrræðin fyrir utan eitt geta hýst á bilinu 30–220 einstaklinga. Þau eru staðsett í Reykjavík, Reykjanesbæ, Kópavogi, Hafnarfirði, Hvalfirði, Laugarvatni og á Akureyri.

Auk þess er Vinnumálastofnun með þjónustusamning við fjögur sveitarfélög sem hýsa 440 hælisleitendur og er samsetning íbúða hjá þeim mjög mismunandi. Hjá sveitarfélögunum er bæði verið að leigja herbergi og íbúðir.

Vinnumálastofnun er með þjónustusamning við Reykjavík, Reykjanesbæ, Hafnarfjörð og Borgarbyggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert