Allt tiltækt lið frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur verið kallað út vegna bruna í húsi við Amtmannsstíg í Reykjavík en útkallið barst á áttunda tímanum í morgun.
Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sagði við mbl.is að allt tiltækt lið hafi verið sent á staðinn en gat ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu.
Uppfært klukkan 8.52:
Að sögn Borgars Valgeirssonar, varðstjóra hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, hefur tekist að slökkva eldinn sem upp kom í íbúðarhúsnæði við Amtmannsstíg 6.
Hann segir að tveir hafi verið fluttir á slysadeild og að slökkviliðið vinni nú að því að reykræsta íbúðina.