Dansað og djammað á hlöðuballi í Þistilfirði

Í sveitinni skemmta allir sér saman og ekkert kynslóðabil. Þessar …
Í sveitinni skemmta allir sér saman og ekkert kynslóðabil. Þessar systkinadætur eru frá bæjunum Holti og Laxárdal í Þistilfirði, f.v. Eva, Kristín, Arna, Guðrún, Ása og Hólmfríður. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Það gerist vart þjóðlegra en góðra vina fundur í hlýlegri hlöðu í rammíslenskri sveit.

Sá viðburður var haldinn á býlinu Holti í Þistilfirði í ágústbyrjun en tilefni gleðinnar var 20 ára brúðkaupsafmæli hjónanna á bænum, þeirra Hildar Stefánsdóttur og Sigurðar Þórs Guðmundssonar.

Þau vildu deila gleðinni með sveitungum og vinum en þau reka þar einnig Gistiheimilið Grástein og eru því engir nýgræðingar þegar kemur að veisluhöldum og viðburðum.

Hjónin héldu í sameiningu stutta tölu í byrjun gleðinnar og lögðu þau út af hinu gamla spakmæli „maður er manns gaman“ og gildi þess að gleðjast saman, það þarf ekki alltaf að leita langt yfir skammt.

Hildur og Sigurður buðu gesti velkomna í hlöðuna.
Hildur og Sigurður buðu gesti velkomna í hlöðuna. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Hollt er heima hvat

Kúrekahattar og lopapeysur voru þema kvöldsins og prjónaklúbbar landsins hefðu eflaust viljað að vera fluga á vegg í hlöðunni og telja út munstur í lopapeysum samkomugesta, íðilfögru íslensku handverki.

Dansgleði var mikil í hlöðunni þar sem hljómsveit skipuð vinum og ættingjum sá um fjörið.

Veitingar voru ekki af verri endanum, bæði fastar og fljótandi en í öndvegi var tvíreykt hangikjötslæri úr reykkofanum á bænum. Ungir og aldnir skemmtu sér saman, í sveitinni er ekkert kynslóðabil.

Grillað á miðnætti

Inn af hlöðunni voru stíur hestanna sem í þetta sinn þjónuðu sem huggulegir setkrókar með sætum úr ilmandi töðuböggum sem gáfu fínustu sófasettum ekkert eftir.

Þegar leið að miðnætti var tendrað í grillinu og vaskir menn brugðu sér í kokkahlutverkið. Þeir grilluðu af list hamborgara úr eðalkjöti með tilheyrandi en dansfólkið tyllti sér á garðabandið og snæddi góðgætið á milli dansa.

Saddir og sælir gestir héldu svo heim úr sveitinni í ágústhúminu, hjartanlega sammála gestgjöfum sínum um mikilvægi þess að gleðjast saman á góðri stundu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert