Fullorðinn karlmaður lést í brunanum við Amtmannsstíg í morgun. Maðurinn var íbúi í húsinu. Hann var fluttur af vettvangi og úrskurðaður látinn.
„Það var tilkynnt um eld þarna á níunda tímanum í morgun og það var karlmaður fluttur burt og úrskurðaður látinn,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Maðurinn var innandyra þegar viðbragðsaðila bar að.
„Núna er tæknideild búin að vinna sína vinnu þarna niður frá og rannsóknin tekur við, á þessum tímapunkti er ekkert meira um það að segja,“ segir Grímur um stöðu málsins. Öllum steinum sé velt við í málum sem þessum og þá sérstaklega ef einhver lætur lífið.