Fóru strax í lífbjörgun

Guðjón Guðjónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Guðjón Guðjónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað til vegna bruna í húsi á Amtmannsstíg í dag. Fljótlega kom í ljós að einstaklingur var inni í húsinu og var þá farið í lífbjörgun. 

Þetta segir Guðjón Guðjónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Það er strax vitað þegar að boðin koma að það er töluverður reykur að koma frá húsinu. Mjög fljótlega fáum við að vita að það er einstaklingur inni á miðhæðinni. Þá ákváðum við strax að fara í lífbjörgun,“ segir Guðjón við blaðamann.

Þá hafi ekki verið í forgangi að slökkva eldinn strax, heldur að finna og bjarga einstaklingnum.

Frá aðgerðum slökkviliðs í dag.
Frá aðgerðum slökkviliðs í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn fluttur á bráðamóttöku

„Fyrstu reykkafarar fóru inn með slöngu með sér og finna einstaklinginn tiltölulega fljótlega. Einstaklingurinn fór beint á sjúkrabörur og um borð í sjúkrabíl og var fluttur á bráðamóttöku,“

Guðjón áréttir að einn einstaklingur hafi verið fluttur á bráðamóttöku, en áður hafði komið fram að tveir einstaklingar hafi verið fluttir á slysadeild.

Guðjón segir að það hafi tekið um 15-20 mínútur til að slökkva eldinn, en svo hafi tekið við talsverð vinna við að leita að eldhreiðrum í húsinu.

16 manns á fjórum dælubílum voru kallaðir út og átta manns á fjórum sjúkrabílum. Fljótlega hafi þó hluta af mannskapnum verið hleypt heim.

Ekki vitað um ástand einstaklingsins

Ekki liggur fyrir að svo stöddu hver eldsupptökin voru, en húsið er á tveimur hæðum, auk kjallara. Eldurinn kom upp á jarðhæðinni.

Guðjón segir töluvert tjón hafa orðið, en hann gat ekki sagt til um ástand einstaklingsins sem var fluttur á bráðamóttöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert