Hlaupa fyrir bættum aðbúnaði Landspítalans

Hluti af hlaupahópnum. Frá vinstri: Gísli Þór Gunnarsson, Gunnar Þór …
Hluti af hlaupahópnum. Frá vinstri: Gísli Þór Gunnarsson, Gunnar Þór Gíslason, Ingólfur Árni Gunnarsson, Halldór Páll Gíslason (Halli), Ómar Hvanndal Ólafsson, Jóna Svandís Halldórsdóttir og Kristinn Helgi Guðjónsson. Ljósmynd/Aðsend

Hlaupahópurinn Team Halli frændi ætlar að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu 24.ágúst til styrktar Minningar- og styrktarsjóðs blóð- og krabbameinsdeilda Landspítalans.

Hafa safnað tæpri milljón

Hópurinn stefnir að því að safna einni og hálfri milljón í styrk, en hann hefur nú þegar safnað næstum einni milljón. 

Halli, sem ýmist er frændi, bróðir eða faðir meðlima hópsins hefur legið inni á blóð- og krabbameinsdeildum síðustu mánuði vegna erfiðrar baráttu við bráðahvítblæði. 

Hann hefur nú lokið beinmergsskiptum og er á batavegi.

„Það má alltaf gera gott betur“

Hópurinn safnar fyrir bættum aðbúnaði fyrir aðstandendur á deildunum, en oftar en ekki þurfa aðstandendur að dvelja þar löngum stundum. 

Jóna Svandís Halldórsdóttir, dóttir Halldórs eða Halla eins og hann er kallaður, segir það hafa verið mikið áfall þegar faðir hennar veiktist skyndilega síðasta haust og fjölskyldan hafi varið miklum tíma á deildinni síðustu mánuði. 

„Fólk sem leggst inn á þessa deild er oftar en ekki mjög veikt, og því vilja aðstandendur auðvitað verja tíma sínum hjá þeim. Okkur leið vel þar, en það má alltaf gera gott betur þannig við ákváðum að safna fyrir bættum aðbúnaði.“

Peppa hvort annað áfram

Fjölskyldan hefur oft hist á síðustu mánuðum og æft saman, en hlaupararnir eru ýmist að hlaupa tíu kílómetra eða hálft maraþon. 

„Við höfum auðvitað reynt að halda hópinn og peppa hvert annað áfram!“

Spurð hvort þau hafi búist við þeirri fjárhæð sem þau hafa hlotið í styrk segist hún allavega hafa vonað það.

„Við vorum að vonast til þess að fá um milljón í styrk, en ákváðum bara að setja markið aðeins hærra og stefna í eina og hálfa milljón. Ég held að við getum náð því, enda nægur tími til stefnu.“

Enn er hægt að styrkja hlaupahópinn Team Halli frændi inn á vefsíðunni hlaupastyrkur.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert