Lögreglumaður sem skoðaði síma Sverris Þórs Gunnarssonar, sem er betur þekktur sem Sveddi tönn, bar vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í máli gegn Pétri Jökli Jónassyni. Talið er að Sverrir Þór og Pétur hafi rætt um fíkniefnaviðskipti, en Pétur er ákærður fyrir aðild að stóra kókaínmálinu.
Sverrir Þór var handtekinn í apríl árið 2023 í umfangsmiklum aðgerðum brasilísku lögreglunnar og situr nú í fangelsi þar fyrir fíkniefnalagabrot.
Í maí árið 2022 lagði gámur af stað frá Brasilíu sem innihélt tæplega 100 kg af kókaíni sem falið var í trjádrumbum. Gámurinn hafði viðkomu í Rotterdam í Hollandi þar sem hollensk yfirvöld lögðu hald á fíkniefnin og skiptu þeim út fyrir gerviefni.
Lögreglumaðurinn skoðaði síma og spjaldtölvu Sverris Þórs.
Meðal annars fann hann samskipti á milli Sverris og þriggja notendanafna á Signal. Nýtt símanúmer var að baki hvers þeirra og tók hvert símanúmer við af öðru í samskiptunum. Hann sagði nokkur atriði benda til þess að sami einstaklingur hefði verið að baki þeirra allra.
Meðal annars var notast við notendanafnið Johnny Rotten á spænsku símanúmeri.
Notendanafnið sendi tengiliðaupplýsingar á Sverri Þór og þá var minnst á sakborninganna í saltdreifaramálinu og „B“ sem lögregla telur hafa verið Birgir Halldórsson sem var dæmdur í stóra kókaínmálinu.
Þá töluðu Sverrir Þór og maðurinn sem talinn er hafa verið Pétur Jökull um burðardýr og hvernig skyldi skipta hagnaði.