Íslenska lögreglan skoðaði raftæki Sverris Þórs

Sverrir Þór Gunnarsson árið 2012.
Sverrir Þór Gunnarsson árið 2012. mbl.is

Lögreglumaður sem skoðaði síma Sverris Þórs Gunnarssonar, sem er betur þekktur sem Sveddi tönn, bar vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í máli gegn Pétri Jökli Jónassyni. Talið er að Sverrir Þór og Pétur hafi rætt um fíkniefnaviðskipti, en Pétur er ákærður fyrir aðild að stóra kókaínmálinu.

Sverrir Þór var handtekinn í apríl árið 2023 í um­fangs­mikl­um aðgerðum bras­il­ísku lög­regl­unn­ar og situr nú í fangelsi þar fyrir fíkniefnalagabrot.

Í maí árið 2022 lagði gámur af stað frá Brasilíu sem innihélt tæplega 100 kg af kókaíni sem falið var í trjádrumbum. Gámurinn hafði viðkomu í Rotterdam í Hollandi þar sem hollensk yfirvöld lögðu hald á fíkniefnin og skiptu þeim út fyrir gerviefni.

Kókaínið sem hollenska lögreglan gerði upptæk.
Kókaínið sem hollenska lögreglan gerði upptæk. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Skipting hagnaðar og burðardýr

Lögreglumaðurinn skoðaði síma og spjaldtölvu Sverris Þórs. 

Meðal annars fann hann samskipti á milli Sverris og þriggja notendanafna á Signal. Nýtt símanúmer var að baki hvers þeirra og tók hvert símanúmer við af öðru í samskiptunum. Hann sagði nokkur atriði benda til þess að sami einstaklingur hefði verið að baki þeirra allra.

Meðal annars var notast við notendanafnið Johnny Rotten á spænsku símanúmeri.

Notendanafnið sendi tengiliðaupplýsingar á Sverri Þór og þá var minnst á sakborninganna í saltdreifaramálinu og „B“ sem lögregla telur hafa verið Birgir Halldórsson sem var dæmdur í stóra kókaínmálinu.

Þá töluðu Sverrir Þór og maðurinn sem talinn er hafa verið Pétur Jökull um burðardýr og hvernig skyldi skipta hagnaði.

Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert