Líklegt að Pétur sé maðurinn á upptökunni

Pétur Jökull í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Pétur Jökull í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérfræðingur í raddgreiningu við Háskólann í Árósum í Danmörku bar vitni í málinu gegn Pétri Jökli Jónassyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hún telur líklegt að Pétur Jökull hafi verið maðurinn sem ræddi við Daða Björnsson í síma er hann sýslaði með það sem hann taldi vera um 100 kg af kókaíni.

Hljóðupptakan var tekinn upp með búnaði lögreglu í Gjáhellu í Hafnarfirði í ágúst árið 2022. Upptakan var spiluð í héraðsdómi í gær og er afar óskýr en heyrist þó Daði tala við annan karlmann.

Daði sagðist í skýrslu­töku lög­reglu hafa verið í sam­skipt­um við ein­hvern stór­gerðan, þrek­inn og ljós­hærðan Pét­ur sem klædd­ist stund­um jakka merkt­um Stone Is­land. Í skýrslu­töku í dómsal í gær sagði Daði að ákærði væri ekki sami Pét­ur.

Ber saman upptökur

Danski sérfræðingurinn útskýrði vinnu sína á þann hátt að hún fái sendar upptökur af refsiverðu athæfi sem hún beri síðan saman við aðrar hljóðupptökur af röddum einstaklinga.

Sérfræðingurinn ber meðal annars saman raddgæði, framburð á mismunandi hljóðum og hikorð.

Hún sagði það ekki hafa áhrif á vinnu hennar að greina tungumál sem hún skilur ekki sjálf, svo sem íslensku.

Svipaður hlátur á öllum upptökum

Sérfræðingurinn sagði ekkert gefa til kynna að upptökurnar sem hún fékk frá íslensku lögreglunni væru ekki af einum og sama manninum.

Hún sagði það hafa verið einkennandi að maðurinn talaði lágt og djúpt og með litlum hljóðstyrk. Þá væri eins og maðurinn væri hás að ákveðnu leyti og loftið færi fram hjá raddböndunum.

Hún sagði manninn eiga það til að muldra og er hann lét hikorð út úr sér ætti röddin til að brotna.

Þá sagði sérfræðingurinn að hlátur mannsins hefði verið svipaður á öllum upptökum sem hún hafði undir höndum.

Byggt á vísindalegum grunni

Sérfræðingurinn sagði að niðurstaða greiningar hennar á tölulegum skala hefði verið plús einn. Skalinn væri frá mínus fjórum og upp í plús fjóra. Það þýddi að það væru meiri líkur en minni að um sama einstakling væri að ræða. Ekki væri þó hægt að fullyrða neitt.

Snorri Sturluson, verjandi Péturs, spurði sérfræðinginn að hve miklu leyti vinna hennar væri vísindaleg samanborið við huglæg.

Sérfræðingurinn sagði erfitt að greina þar á milli. Vissulega væru sumir þættir huglægir en allt byggði á vísindalegum grunni.

Hún benti á að hún væri lærð í þessum fræðum, hefði rekið fyrirtæki á sviðinu í tíu ár og væri reglulega kölluð til aðstoðar lögreglu.

Aðalmeðferð í málinu lýkur á föstudag með málflutningi sækjanda og verjanda. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Pétri Jökli rennur út 5. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert