Viðskiptaráð hefur sent mennta- og barnamálaráðuneytinu upplýsingabeiðni um niðurstöður námsmats í grunnskólum.
Í beiðninni óskar Viðskiptaráð eftir einkunnum úr alþjóðlega könnunarprófinu PISA, niðurstöðum samræmdra könnunarprófa, og skólaeinkunnum sundurgreindum eftir grunnskólum.
Frá þessu greinir ráðið í tilkynningu og segir bréfið sent vegna óbreyttra áforma ráðuneytisins og undirstofnana þess um að birta ekki niðurstöður samræmds námsmats sundurgreindar eftir skólum.
Hávær umræða um árangur íslenska grunnskólakerfisins hefur sprottið upp í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins undanfarnar vikur.
Bent er á að sviðsstjóri matssviðs Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu hafi sagt að í nýju samræmdu námsmati, svokölluðum Matsferli, verði niðurstöður eftir skóla ekki gerðar opinberar þar sem gæta verði að persónuvernd.
„Þessi ummæli sviðsstjórans stangast á við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál,“ segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.
Vísað er til þess að nefndin hafi árið 2014 skyldað Reykjavíkurborg til að birta opinberlega PISA-einkunnir frá árinu 2012 sundurgreindar eftir skóla, þar sem í gögnunum hafi ekki verið að finna neinar persónugreinanlegar upplýsingar.
Borgin birti í kjölfarið einkunnirnar fyrir grunnskóla með 15 eða fleiri þátttakendur til að tryggja persónuvernd og tölfræðilega marktækni. Gröfin hér að ofan og neðan eru byggð á þeim upplýsingum.
„Gögnin leiddu í ljós meiriháttar mun á færni nemenda eftir grunnskólum. Þannig munaði 154 PISA-stigum á efsta og neðsta grunnskólanum. Til samanburðar fjölgar stigum um 40 fyrir hvert ár skólagöngu að jafnaði hjá þátttökuríkjum PISA,“ segir í tilkynningu ráðsins.
Mismunur á námsárangri á milli grunnskóla Reykjavíkurborgar jafngilti því tæplega fjórum árum af skólagöngu.
„Sömu gögn leiddu í ljós meiriháttar mun á lesskilningi. Þannig töldust 3% barna ekki búa yfir grunnfærni í lesskilningi í þeim skóla sem best kom út, á meðan hlutfallið nam 64% í þeim skóla sem verst kom út.
Að mati Viðskiptaráðs er brýnt að gögn um námsmat verði gerð opinber fyrir landið allt svo umræða geti farið fram um leiðir til að tryggja fullnægjandi færni barna í öllum grunnskólum.
Íslensk stjórnvöld hafa þá frumskyldu að tryggja börnum fullnægjandi menntun óháð búsetu. Áframhaldandi áform um leynd yfir námsmati í einstökum grunnskólum eru á skjön við þá skyldu.“