Óábyrgt að brjóta blað í orkumálum án stefnumótunar

Landvernd segir að sjónræn áhrif af vindorkuverinu yrðu mikil.
Landvernd segir að sjónræn áhrif af vindorkuverinu yrðu mikil. mbl.is/Árni Sæberg

Landvernd segir leyfi Orkustofnunar til vindorkuframleiðslu mikið áhyggjuefni og kallar eftir heildarstefnu og lýðræðislegri umræðu um kosti og galla við nýtingu vindorku á Íslandi.

Kemur þetta fram í tilkynningu Landverndar sem kemur í kjölfar þess að Orku­stofn­un af­greiddi í gær virkj­un­ar­leyfi fyr­ir vindorku­verið Búr­fells­lund við Vaðöldu. Telur Landvernd ótímabært að gefa út virkjanaleyfi til vindorkuframleiðslu á meðan heildarstefna er óunnin.

Sjónræn áhrif yrðu mikil

„Landvernd tekur undir ummæli orkumálastjóra um brýna nauðsyn þess að stjórnvöld móti langtímastefnu, um í hvað eigi að nýta vindorkuna og hvort vindorkuver verði stór eða lítil, mörg eða fá og að ræða þurfi eignarhald vindorkuvera,“ segir í tilkynningunni.

Kemur þá einnig fram að Landvernd hafi skilað umsögnum um málið á fyrri stigum og að meðal annars hafi komið fram að virkjunarhugmyndin sé sannarlega því á svæði sem teljast verður hafa mikil áhrif á víðerni og miðhálendi.

Benda samtökin á að þó að svæðið sé að stórum hluta þegar raskað af stórum virkjunum yrðu sjónræn áhrif vindorkuversins mikil og myndi það sjást víða að. Að mati Landverndar má ekki skerða verndargildi miðhálendisins og möguleika á stofnun þjóðgarðs á svæðinu.

Hvatning til að þrýsta á stjórnvöld

„Orkumálastjóri segir að almenningur hafi ekki séð mannvirki af þessari stærðargráðu áður hér á landi, eins og það sem nú á að leyfa innan við Búrfell. Landvernd telur að stærð orkuvera, hæð mastra, fjöldi þeirra, staðsetning, eignarhald og orkunýting eigi heima í langtímastefnumótun. Það er óábyrgt að brjóta blað í orkumálum með byggingu vindorkuvera án þess að stefnumótun liggi fyrir,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Segir Landvernd leyfið einnig vera hvatningu fyrir náttúrverndarsinna og almenning um að þrýsta á stjórnvöld að móta stefnu í tæka tíð.

„[...] en ekki eftir að framkvæmdir sem nú eru á teikniborðinu á tugum svæða hringinn í kringum landið verða komnar svo langt að erfitt sé að hafa áhrif á þær.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka