Pétur Jökull ekki endilega höfuðpaurinn

Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær ásamt verjanda …
Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær ásamt verjanda sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljóst er að um flókinn og margþættan vef fólks er að ræða sem kom að stóra kókaínmálinu til að reyna að hylja slóðina og gera lögreglu erfitt fyrir. Pétur Jökull Jónasson, sem ákærður er fyrir aðild, er ekki endilega talinn vera höfuðpaurinn í málinu.

Vitnaleiðslur héldu áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í málinu gegn Pétri Jökli. Í gær báru fjórmenningarnir sem hafa þegar verið dæmdir í málinu vitni. Þeir vildu lítið segja. Annaðhvort sögðust þeir ekki þekkja Pétur eða hann ekki tengjast málinu.

Lögreglumenn sem komu að rannsókn málsins og báru vitni í dag sammæltust um að um flókna og langa keðju fólks hafi verið að ræða til þess að villa fyrir lögreglu, meðal annars var passað að undirmenn töluðu ekki saman. „Allir að reyna hylja slóðir sínar eins og þeir gátu,“ sagði einn lögreglumannanna.

Pétur Jökull er talinn hafa verið ákveðinn skipuleggjandi sem stýrði Daða Björnssyni, en enginn höfuðpaur. Þá kom fram að þeir sem áttu fíkniefnin hafa ekki verið ákærðir.

„Aldrei eins sannfærður”

Daði Björnsson sagðist í skýrslutöku lögreglu hafa verið í samskiptum við einhvern stórgerðan, þrekinn og ljóshærðan Pétur sem klæddist stundum jakka merktum Stone Island. Í skýrslutöku í dómsal í gær sagði Daði að ákærði væri ekki sami Pétur.

Lögreglumaður sagðist í dag fullviss um að maðurinn sem Daði var í samskiptum við hefði verið Pétur Jökull.

Upptaka er til af Daða tala við mann í síma um hvað skuli gera við fíkniefnin. Eftir að hafa rætt við Pétur Jökul í skýrslutökum sagðist lögreglumaðurinn „aldrei eins sannfærður” að um sama Pétur væri að ræða.

Þá sagðist Daði í skýrslutöku lögreglu hafa leitað að Pétri Jökli á netinu og fundið frétt um að hann hafi áður flutt inn fíkniefni. Sú lýsing leiddi lögreglu meðal annars að Pétri Jökli Jónassyni.

Lögreglumaðurinn sagði framburð Daða hafa verið stöðugan og ýmis gögn styðja við þá kenningu að um Pétur Jökul hafi verið að ræða. Mörg brot pössuðu inn í stóru myndina.

Daði Björnsson og Páll Jónsson í héraðsdómi í byrjun síðasta …
Daði Björnsson og Páll Jónsson í héraðsdómi í byrjun síðasta árs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglumaðurinn sagði Daða hafa verið samstarfsfúsan en ekki vera svokallaðan „squealer“, það er að segja uppljóstrara.

Spurt var af hverju Daða var aldrei sýnd mynd af Pétri Jökli til að staðfesta að það væri maðurinn sem hann hitti, en líkt og áður sagði neitaði Daði í dómsal að hann hafi hitt ákærða. Lögreglumaðurinn sagði að það hefði farið gegn verkferlum þar sem einungis voru til gamlar myndir af Pétri. Dómari gagnrýndi að það hefði ekki verið gert eftir að Pétur var handtekinn í febrúar á þessu ári.

EncroChat

Rannsókn málsins hófst við rannsókn á samskiptum Guðlaug­s Agn­ars Guðmunds­sonar og Hall­dórs Mar­geirs Ólafs­sonar á dulsíma­kerf­inu EncroChat. Þeir hafa báðir verið dæmdir vegna saltdreifaramálsins svokallaða.

Þar ræddu þeir meðal annars um að flytja inn kókaín frá Brasilíu með timbursendingu.

Guðlaugur Agnar ræddi meðal annars við Sverri Þór Gunnarsson, sem er í fangelsi í Brasilíu, og Birgi Halldórsson sem hefur þegar hlotið dóm fyrir aðild sína að málinu.

Raftæki sem voru gerð upptæk á heimili Sverris Þórs í Brasilíu leiddu í ljós að hann hefði verið í samskiptum við notendanafnið „Harry“. Pétur Jökull er talinn vera að baki notendanafninu en sami Harry ræddi við Daða.

Verjandi Péturs spurði af hverju Guðlaugur og Halldór hefðu ekki verið handteknir strax og svaraði lögreglumaðurinn að hvorki hefði nægilega sterkur grunur legið fyrir á þeim tímapunkti né næg gögn.

Samstarf við taílensk yfirvöld erfið

Spurður af hverju Pétur Jökull var ekki handtekinn fyrr sagði lögreglumaðurinn það hefði verið flókið.

Pétur var staddur í Taílandi og samstarf við yfirvöld þar í landi gekk erfiðlega. Allar leiðir hefðu verið fullreyndar er lýst var eftir Pétri á vefsíðu Interpol.

Í kjölfarið kom hann til Íslands í samvinnu við íslensku lögregluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert