Segir breytinga þörf á bráðamóttökunni

Mikið álag er á bráðamóttökunni og Ólafur Guðbjörn Skúlason bendir …
Mikið álag er á bráðamóttökunni og Ólafur Guðbjörn Skúlason bendir fólki á að nota símanúmerið 1700. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum segir nauðsynlegt að gera breytingar í heilbrigðiskerfinu til að létta álagið á bráðamóttökunni.

Landspítalinn sendi frá sér tilkynningu í síðustu viku þess efnis að mikið álag væri á bráðamóttöku spítalans. Fólk sem ekki væri í bráðri lífshættu var hvatt til að hringja í símanúmerið 1700 eða nýta netspjall Heilsuveru til að fá ráðgjöf.

Ólafur Guðbjörn Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir í samtali við mbl.is að ástandið á bráðamóttökunni geti auðveldlega orðið erilsamt. 

Ólafur leggur áherslu á að fólk nýti sér símanúmerið 1700 þegar einstaklingur er ekki í bráðri lífshættu svo hægt sé að beita réttri forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. 

„Ef það er mikið álag á bráðamóttökunni og mikið um bráðveikt fólk, þá getur þú lent í því að bíða í marga klukkutíma ef þú ert með einhver vandamál sem fá ekki bráðaforgangsflokkun,“ segir Ólafur. 

Óvenju mikið um flensueinkenni 

Spurður um ástæðurnar fyrir auknu álagi á bráðamóttökunni bendir Ólafur á að óvenju mikið sé um flensu- og öndunarfæraeinkenni þessa dagana: „Þannig fólk er slappt, og svo virðist þetta oft gerast eftir verslunarmannahelgina að það eykst aðflæði.“

Þrátt fyrir álagið hrósar Ólafur starfsfólki bráðamóttökunnar fyrir að standa sig vel við erfiðar aðstæður. „Starfsfólkið er náttúrulega bara frábært, þau eru vön þessu og þau vita alveg hvernig á að bregðast við þegar ástandið er svona og forgangsraða. Auðvitað er mikið álag á þeim eins og við vitum, en þau standa sig frábærlega,“ bætir hann við.

Breytingar nauðsynlegar 

Hvað snertir framtíðarlausnir segir Ólafur að breytingar á heilbrigðiskerfinu séu nauðsynlegar til að létta á álaginu á bráðamóttökunni.

„Þetta er hluti af breytingum sem þarf að gera á kerfinu öllu. Eins og birtingamyndin af bráðamóttökunni, hún er út af því að það þarf kannski aðeins að lagfæra kerfið og við erum að vinna að því, bæði með yfirvöldum og öðrum heilbrigðisstofnunum, að gera þetta öðruvísi,“ útskýrir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka