Sonja Lind nýr aðstoðarmaður Willums

Sonja Lind er nýr aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra.
Sonja Lind er nýr aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ráðið Sonju Lind Estrajher Eyglóardóttur sem aðstoðarmann sinn, og mun hún hefja störf í þessari viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Sonja hefur víðtæka reynslu úr stjórnsýslunni. Hún er með meistara- og BA-próf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Einnig hefur hún lokið námi í grafískri miðlun frá Iðnskólanum í Reykjavík. Sonja er gift Pavle Estrajher umhverfis- og náttúrufræðingi, og eiga þau þrjú börn.

Sonja hefur síðustu fjögur ár starfað sem starfsmaður og verkefnastjóri þingflokks Framsóknar á Alþingi, þar sem hún hefur lagt sitt af mörkum við gerð fjölda þingmannamála tengdum heilbrigðis- og lýðheilsumálum. Áður starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.

Tekur við af Millu Ósk Magnúsdóttur

Sonja hefur einnig gegnt félags- og trúnaðarstörfum, meðal annars sem sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar og ritari stjórnar Félags starfsmanna Alþingis. Hún hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum fyrir Borgarbyggð, þar á meðal velferðarnefnd og barnaverndarnefnd, auk þess að vera varamaður í stjórn Póstsins frá árinu 2020.

Sonja tekur við starfi Millu Óskar Magnúsdóttur sem hefur látið af störfum. Sigurjón Jónsson gegnir einnig starfi aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert