Svipuð merki og fyrir síðustu eldgos

Loftlína frá Svartsengi til Grindavíkur skemmdist verulega í síðasta eldgosi.
Loftlína frá Svartsengi til Grindavíkur skemmdist verulega í síðasta eldgosi. Ljósmynd/HS Veitur

Mælingar á aflögun og jarðskjálftavirkni við Sundhnúkagígaröðina sýna svipuð merki og fyrir síðustu eldgos.

Frá þessu greinir Veðurstofan í tilkynningu.

Tekið er fram að samkvæmt líkanreikningum er rúmmál kviku undir Svartsengi nú áætlað meira en fyrir síðasta eldgos sem hófst þann 29. maí.

„Landris og kvikusöfnun hélt áfram í tvær vikur fyrir það eldgos eftir að þessum mörkum var náð. Þess vegna þarf að gera ráð fyrir því að kvikuhlaup og eldgos geti hafist hvenær sem er, en fyrri dæmi sýna að það gæti þó dregist,“ segir í tilkynningunni.

Landris stöðugt en kann að hafa hægt á því

„Jarðskjálftavirkni á svæðinu hefur farið vaxandi síðustu vikur og sýnir svipaða þróun og fyrir síðustu kvikuhlaup og eldgos. Síðustu sjö daga hefur virknin verið svipuð á milli daga og um 60 til 80 skjálftar mælst á sólarhring á svæðinu frá Stóra-Skógfelli að Grindavík. Flestir skjálftanna eru á um 2-4 km dýpi, þeir grynnstu á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells.“

Aflögunargögn sýna að landris hefur verið stöðugt síðustu eina og hálfa vikuna en þó eru vísbendingar um að hægt hafi á því. Það bendir til þess að kvikuþrýstingur sé að aukast undir Svartsengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert