Vekja athygli á hverfandi og horfnum jöklum

Gengið verður á Ok á sunnudag en hann var afskráður …
Gengið verður á Ok á sunnudag en hann var afskráður sem jökull árið 2014. Ljósmynd/Skjáskot

Sameinuðu þjóðirnar hafa nýlega ákveðið að árið 2025 verði helgað jöklum á hverfanda hveli og að 21. mars ár hvert verði dagur jökla. Í aðdraganda jöklaársins munu ýmsar stofnanir, háskólar og alþjóðasamtök standa fyrir nokkrum viðburðum daganna 17.-18. ágúst til þess að beina athygli að jöklabreytingum og mikilvægi þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Þar segir að alþjóðaárið verði nýtt til þess að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður með efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.

Tímabundinn grafreitur reistur

Laugardaginn 17. ágúst verður haldinn viðburður frá klukkan 13-16 þar sem verður vakin athygli á jöklum sem eru að hverfa eða eru horfnir.

Er viðburðurinn á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Alþjóðlegu jöklabreytingasamtanna, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna og háskólans Rice sem staðsettur er í Houston í Bandaríkjunum.

Mun viðburðurinn hefjast á Fiskislóð 31d í rými Marvaða þar sem opnaður verður alþjóðlegur listi yfir 15 valda jökla sem eru horfnir eða eiga stutt eftir.

„Þaðan verður haldið út á Seltjarnarnes þar sem reistur verður tímabundinn grafreitur með legsteinum úr ís í námunda við hús Náttúruminjasafns Íslands nærri Gróttu. Þar verða lesin upp eftirmæli um alla jöklana á listanum og mun Hildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands lesa ein af eftirmælunum,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Gengið á Ok á sunnudag

Á sunnudag verður svo efnt til göngu á Ok í tilefni þess að fimm ár eru liðin síðan reistur var minningarskjöldur um jökulinn en Ok var afskráður sem jökull haustið 2014 þegar ljóst var hann væri hættur að skríða undan eigin þunga.

Segir þá í tilkynningunni að alþjóðajöklaárið 2025 verði notað til þess að beina athygli almennings og fjölmiðla að rýrnun jökla og efla vöktun og rannsóknir á jöklabreytingum.

„Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru hvött til þess að skiptast á gögnum, þekkingu og aðferðum til þess að sporna við rýrnun jökla og skipuleggja aðlögun að þeim breytingum sem hörfun þeirra veldur,“ segir þar enn fremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka