Vissu ekki neitt í rúma viku

Rjúpnavellir eru í Rangárþingi ytra.
Rjúpnavellir eru í Rangárþingi ytra. mbl.is/Sigurður Bogi

„Frá því að við vissum að þetta væri í vatninu þá er enginn búinn að drekka úr krönunum, ekki nema að hafa gert það af fúsum og frjálsum vilja. Við erum búin að skaffa vatn allan tímann,“ segir Kolbrún Björnsdóttir, einn eigenda Rjúpnavalla í Rangárþingi ytra, en þar er til rannsóknar möguleg hópsýking vegna E.coli-bakteríunnar.

Segir Kolbrún í samtali við mbl.is að búið sé að staðfesta að bakterían sé í vatninu þar á bæ en að það sé væg mengun í vatninu og í raun aðeins viðkvæmir einstaklingar sem hafa veikst.

Sigrún Guðmunds­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Heil­brigðis­eft­ir­lits Suður­lands, sagði í samtali við mbl.is í gær að ekki sé þó enn vitað hvort að mengun í einka­vatns­ból­inu á Rjúpna­völl­um sé ástæða hópsýkingarinnar en tekin voru þar tvö viðbótarsýni í dag.

„Þau vilja náttúrulega vera alveg viss og við fáum út úr því á næstu dögum,“ segir Kolbrún.

Fengu seint að vita af málinu

Nefnir hún að eigendur Rjúpnavalla hafi fengið seint að vita af málinu. Þau hafi fyrst fengið fyrirspurn um hvort einhverjir hafi veikst en ekki verið sagt af hverju. Á þeim tíma hafi ekki verið búið að tilkynna neitt.

„Það var í rauninni daginn eftir að fyrsti hópurinn veikist. Svo líða alveg 7-8 dagar og enginn veit neitt. Við vitum ekki neitt og enginn segir okkur frá því að það sé fólk að veikjast og svo veikjast fleiri,“ segir Kolbrún og bætir við.

„Það er ekki fyrr en heilbrigðiseftirlitið kemur til okkar og þá vitum við að það sé eitthvað í gangi. Okkur finnst það mjög óþægilegt. Af því við brugðumst strax við um leið og við heyrðum hvað var í gangi. Okkur samt datt ekki í hug þegar að heilbrigðiseftirlitið kom og tók sýni að þetta væri í vatninu hjá okkur,“ segir hún.

Bíða eftir niðurstöðum

Segir Kolbrún að eitthvað hafi verið um afbókanir síðan greint var frá hópsýkingunni en verið sé þó að skaffa vatn í flöskum fyrir gesti Rjúpnavalla.

Nefnir hún að beðið sé nú eftir niðurstöðum og að brugðist verði við þegar þær komi í ljós á næstu dögum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert