Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að mestar áhyggjur af yfirvofandi eldgosi séu hvar gossprungan komi til með að opnast og að gosið verði stærra, dragist það á langinn að það hefjist.
Nýjustu mælingar á aflögun og jarðskjálftavirkni við Sundhnúkagígaröðina sýna svipuð merki og fyrir síðasta eldgos
„Við höfum þurft að bíða áður en mestar áhyggjurnar yfirleitt snúa að því hvar upptök eldgossins verða. Og ef biðin er svona löng og að landrisið haldi áfram og meira safnast í kvikuhólfið þá óttumst við að gosið verði stærra, það verði meira flæði og sprungan verði stærri,“ segir Fannar í samtali við mbl.is.
Fannar segir að á undanförnum vikum hafi staðið yfir vinna við að hækka varnargarðana og lengja þá en það blasi við að þeir þoli ekki endalausa áraun með svipuðu magni eins og síðasta gosi. Hann segir að þetta sé verulega óþægileg staða.
„Það er komin dælubúnaður til landsins sem á að að beita til þess að reyna að hægja á hraunstreyminu og ég held að það sé búið að gera það sem hægt er að gera til að reyna að verja bæinn og mannvirkin í Svartsengi.“
Eldgosahrinan við Sundhnúkagígaröðina hófst í desember í fyrra og væntanlegt eldgoss verður það sjötta í röðinni á þessu svæði ásamt einu kvikuhlaupi.
Fannar segir ítrekuð gos þrengi sífellt meira að bænum en allir vonist auðvitað til þess að þessum hamförum í kringum Grindavík fari að ljúka þannig að hægt verði að snúa sér að einhverju öðru og halda sjó.
„Við erum búin að fá fimm gos síðan í desember og það sjötta er yfirvofandi. Við erum reynslunni ríkari og reynum að búa okkur undir það sem talið er að muni gerast. Við vonum að gosið verði sem nyrst þannig að það ógni hvorki þéttbýlinu í Grindavík né Svartsengi,“ segir Fannar.
Bæjarstjórinn segir að fundað sé á hverjum degi á vettvangi almannavarna og allir séu í viðbragðsstöðu.
Stutt er í skólastarf hefjist í grunnskólum landsins en löngu er orðið ljóst að ekkert skólastarf verður í Grindavík á komandi skólaári.
„Það er gert ráð fyrir að börnin gangi í hverfisskóla á þeim stað sem fjölskylda þeirra hefur aðsetur og lögheimili. Fólk hefur verið að flytja sig um set og mun gera það áfram þannig að það er ekki hægt að kortleggja það á þessu stigi hvar öll börnin verða í skóla,“ segir Fannar.
Hann segir að bæjaryfirvöld séu með gott teymi sérfræðinga á sínum vegum sem muni fylgjast með og aðstoða fjölskyldur eins og hægt er við þessar aðstæður.
Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkur, svokölluð Grindavíkurnefnd, kynnti á dögunum aðgerðaráætlun vegna viðgerða á innviðum innan þéttbýlis Grindavíkur. Aðgerðirnar miða að því að tryggja virkni og öryggi innviða, þar á meðal á gatnakerfi, lögnum og opnum svæðum.
„Við vinnum mjög þétt með framkvæmdanefndinni. Við erum á sömu hæðinni í Tollhúsinu þannig að samtalið er mjög virkt og við vinnum hlutina sameiginlega og þetta er sameiginlegt markmið okkar. Það er búið að stilla upp aðgerðaráætlun og það er fara í gang þessa dagana fyrstu verkin hvað það varðar. Menn bíða nú samt eftir hvernig næstu atburðir þróast,“ segir Fannar að lokum.