60 skjálftar mælst við kvikuganginn

Um 60 skjálftar mældust við kvikuganginn síðasta sólarhringinn.
Um 60 skjálftar mældust við kvikuganginn síðasta sólarhringinn. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Staðan á Reykjanesskaganum er svipuð og hefur verið síðustu daga en 60 skjálftar hafa mælst við kvikuganginn í Svartsengi síðastliðinn sólarhring.

Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Í tilkynningu sem Veðurstofan sendi frá sér í gær kom fram að mælingar á aflögun og jarðskjálftavirkni sýndi svipuð merki og fyrir síðustu eldgos á Sundhnúkagígaröðinni.

Þess vegna þurfi að gera ráð fyrir því að kvikuhlaup og eldgos geti hafist hvenær sem er.

Skjálftahrinan við Reykjanestá í rénun

Í gær hófst jarðskjálftahrina við Reykjanestá og mældust um 100 jarðskjálftar á svæðinu að sögn Lovísu Mjallar.

„Það er búið að draga talsvert úr þessum skjálftum og þessi hrina virðist í rénun en skjálftavirkni á þessu svæði þar sem flekaskilin fara í gegn taka sig upp reglulega,“ segir Lovísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert