Aðeins eitt af 50 stærstu fyrirtækjum Íslands getur sýnt fram á samdrátt í losun í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins. Þá geta átta fyrirtæki af 50 sýnt fram á samdrátt í losun frá eigin starfsemi og virðiskeðju. Þetta kemur fram í nýjum sjálfbærnivísi PwC.
Til þess að vera í samræmi við Parísarsamkomulagið þarf fyrirtæki að geta sýnt fram á að meðaltali 7% árlegan losunarsamdrátt. Eina fyrirtækið í úttektinni sem tókst það á síðasta ári, samkvæmt úttekt PwC, var Marel.
Fyrirtæki sem drógu úr losun, en ekki í samræmi við Parísarsamkomulagið, voru Arion banki, Arnarlax, ÁTVR, Eik, Hagar, Orkuveita Reykjavíkur og Össur.
Hulda Steingrímsdóttir, leiðtogi sjálfbærnimála hjá PwC, segir í samtali við mbl.is að sjálfbærnivísirinn sé fyrstur af sínu tagi á Íslandi.
Með nýrri tilskipun Evrópusambandsins um sjálfbærniupplýsingar (Corporate Sustainability Reporting Directive, CSRD) verða gerðar auknar kröfur til stórra fyrirtækja á sviði sjálfbærnimála.
Mun þetta vafalaust kosta fyrirtæki bæði tíma og peninga en opna líka á tækifæri, að hennar sögn.
„Þessar kröfur sem að öllum líkindum taka gildi 1. janúar þýða að fyrirtæki geta ekki horft bara á efnahagsreikning og tölur, heldur þurfa þau einnig að halda utan um og gera grein fyrir sjálfbærnimálum sínum á sama hátt og á við um fjárhagsupplýsingar. Þetta er í raun bara ný gerð af ársreikningum, getum við sagt,“ segir Hulda.
Í sjálfbærnivísinum er aðeins horft til loftslagsmála að þessu sinni og PwC greindi opinberar upplýsingar frá 50 stærstu fyrirtækjum landsins.
Þau fyrirtæki sem voru með góða loftslagsskýrslu en sýndu ekki samdrátt í losun voru Íslandsbanki, Landsbankinn, Landsvirkjun, Skel og Ölgerðin.
22 fyrirtæki voru með loftslagsskýrslu en „tækifæri til úrbóta í skýrslugjöf“ og 15 fyrirtæki greindu ekki frá losun.
Hulda segir að sjálfbærnivísirnn sé tilraun til þess að fá yfirsýn yfir sjálfbærnistarf fyrirtækja á Íslandi. Hann er byggður á vinnu sem PwC í Noregi hefur verið með núna í fimm ár þar sem skoðuð eru stærstu fyrirtækin í Noregi og metið þeirra loftslagsstarf.
Hún segir að miðað við gögnin sem eru fyrirliggjandi þá séu íslensk fyrirtæki ekki jafn vel í stakk búin og til dæmis fyrirtæki í Noregi.
„Þetta er heilmikil vinna fyrir fyrirtækin,“ segir hún um þá sjálfbærnivinnu, þ.m.t. loftslagsbókhaldið, sem fyrirtæki munu þurfa að gera.
Af fyrirtækjunum 50 þá tilgreina 27 þeirra í nýjustu fyrirliggjandi skýrslum sínum að undirbúningur fyrir innleiðingu CSRD hafi hafist á liðnu tímabili.
Spurð hvort fyrirtækin séu vel í stakk búin fyrir innleiðingu tilskipunarinnar segir Hulda:
„Ég hugsa að þau séu flest öll byrjuð að hugsa um þetta og átta sig á þessu. Ég myndi hvetja þau öll til að leggja mikinn kraft í þetta núna, þrátt fyrir að reglugerðin hafi ekki enn tekið gildi, því þetta er mikil vinna. Þá þarf líka að hugsa um að skipuleggja gagnasöfnun og ýmislegt svona getur tekið tíma,“ segir Hulda.
Hún segir að lokum að loftslagsváin sé ein stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir og að spýta þurfi í lófana í til að ná þeim loftslagsmarkmiðum, sem Ísland hefur skuldbundið sig til að ná.