Andlát: Hörður Jón Fossberg

Hörður Jón Fossberg Pétursson húsgagnabólstrari og kaupmaður er látinn, 93 …
Hörður Jón Fossberg Pétursson húsgagnabólstrari og kaupmaður er látinn, 93 ára að aldri. mbl.is/Ásdís

Hörður Jón Fossberg Pétursson, húsgagnabólstrari og kaupmaður, lést á Landspítalanum í Fossvogi 10. ágúst sl., 93 ára að aldri.

Hörður fæddist 7. mars 1931 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sveinbjörg Sigfúsdóttir og Pétur Hoffmann Salómonsson, að því er talið var, allt þar til Hörður leitaði uppruna síns fyrir nokkrum árum. Með faðernis­prófi árið 2019 fékkst loks staðfest að faðir Harðar var Gunnlaugur Jón Fossberg. Frá þessu greindi Hörður í ítarlegu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. apríl 2021.

„Ég á nú ekkert í þér“

Þar kom m.a. fram að snemma hafi gengið sögur um bæinn að Pétur Hoffmann væri ekki faðir Harðar, enda sagði Pétur eitt sinn við hann: „Ég á nú ekkert í þér!“  Hörður var skírður viku áður en hann var fermdur og þá bætti móðir hans nafninu „Jón“ aftan við Harðar nafnið, en enginn í fjölskyldunni hét Jón. Þegar Hörður spurði móður sína hvers vegna hún vildi bæta þessu nafni við þá sagði hún að sér þætti þetta bara fallegt nafn. 

Þegar Hörður var kominn að níræðu ákvað hann að fara í faðernisprófið, og tók í kjölfarið upp nafnið Fossberg og fékk það skráð í Þjóðskrá. Var hann þakklátur stuðningnum sem systkinabörn hans og Fossbergfjölskyldan sýndu leit hans að upprunanum.

Lærður bólstrari

Hörður ólst upp í Austurbænum og gekk í Austurbæjarskólann. Hann vann ýmis störf frá unga aldri en lærði síðan húsgagnabólstrun. Fyrst var hann hjá Kristjáni Tromberg en lauk samningi hjá Bólsturgerð Ingimars Jónssonar í Brautarholti 22, undir leiðsögn fagmeistarans Kristjáns Sigurjónssonar. Lauk Hörður náminu 1955 og hafði þá tekið tvö ár í Iðnskólanum.

Hörður hóf rekstur eigin húsgagnabólstrunar 1956 og rak fyrirtækið allt til 2003. Fyrst var hann með starfsemina á Laugavegi en flutti 1972 á Grensásveg. Hafði þá bætt við sig sölu húsgagna og nafni fyrirtækisins var breytt í HP Húsgögn.

Hörður seldi m.a. viðarhúsgögn eins og saumaborð og skatthol sem urðu bæði þekkt og vinsæl meðal landsmanna. Bólstrun Harðar átti fyrstu leiknu auglýsinguna sem birtist í Sjónvarpinu. Leikendur voru Herdís Þorvaldsdóttir og Árni Tryggvason. Margir mundu setninguna: „Skattholið mitt”. Löngu síðar vakti Hörður aftur athygli með útvarpsauglýsingum eins og „Gangið ekki framhjá þegar þið gangið framhjá.“ Og á góðviðrisdegi auglýsti hann „Lokað vegna veðurs“ sem hafði þá ekki heyrst í útvarpi.

Eftirminnilegt fyrsta bikarmark

Hörður var mikill Framari, lék knattspyrnu með félaginu á yngri árum, varð síðar fyrsti formaður knattspyrnudeildar 1964 og varaformaður Fram. Hlaut hann æðstu heiðursmerki Fram fyrir sitt framlag; brons-, silfur- og gullmerki. Var hann einnig þjálfari hjá félaginu.

Þess má geta að Hörður var orðinn 27 ára er hann hóf að leika knattspyrnu með Fram. Til gamans má nefna að hann skoraði fyrsta markið sem skorað var í bikarkeppni þegar efnt var til hennar í fyrsta sinn hér á landi, sumarið 1960. Markmið var eftirminnilegt, Hörður lék sem bakvörður, var kominn rétt yfir miðju er hann lét vaða að markinu með föstu skoti sem endaði uppi í vinklinum!

Hörður var einnig frumkvöðull í Kiwanis, m.a. forseti Kötlu, og beitti sér fyrir kaupum á fyrsta bílnum sem sérhannaður var fyrir fatlaða. Hörður átti lengi sæti í stjórn Kaupmannasamtaka Íslands og fékk gullmerki samtakanna fyrir vel unnin störf. Þá var hann félagi í Frímúrarareglunni til margra ára. Síðustu 20 árin lék hann golf í Nesklúbbnum, 

Eftirlifandi eiginkona Harðar er Helga Sigurðardóttir en þau voru gift í nærri 50 ár. Fyrri kona Harðar var Birna Björnsdóttir, f. 1927, d. 2005. Þau eignuðust þrjú börn; Sigurð Pétur, f. 1955, Bjarka, f. 1960, og Dögg, f. 1965. Áður átti Hörður soninn Hörð, f. 1953, með Sigríði Brynjólfsdóttur. Sonur Helgu er Árni Elíasson, f. 1956.

Útför Harðar fer fram frá Háteigskirkju föstudaginn 16. ágúst kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert