Einar Þorsteinsson borgarstjóri verður gestur Stefáns Einars í Spursmálum á föstudag.
Viðtalið ber upp á afmæli Reykjavíkurborgar, sem fagnar 238 ára kaupstaðarafmæli. Þann dag eru einnig liðnir sjö mánuðir frá því að Einar tók við keflinu af Degi B. Eggertssyni sem gegnt hafði embætti borgarstjóra í áratug.
Einar vann stórsigur í sveitarstjórnarkosningunum 2022. Þar hlaut flokkur hans, Framsóknarflokkurinn, 18,7% og fjóra fulltrúa. Var það mikil breyting frá kosningunum á undan þegar flokkurinn hlaut aðeins 3,2% og engan fulltrúa.
Að kosningum loknum myndaði Einar meirihluta í borginni ásamt Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum. Samið var um að Dagur B. yrði borgarstjóri fyrstu misserin en hafa svo stólaskipti við Einar og gerast formaður borgarráðs.
Á sama tíma vék VG úr meirihlutanum eftir að hafa fengið einn borgarfulltrúa kjörinn með sléttum 4% atkvæða.
Í kosningunum 2022 lagði Einar áherslu á að með stuðningi við Framsókn væri fólk að kalla breytingar yfir staðnaða höfuðborg.
Í viðtalinu á föstudag mun Stefán Einar ræða við nafna sinn um áherslur flokksins, hverju nýr borgarstjóri hefur komið til leiðar og hvaða breytingar borgarbúar muni verða áskynja um á komandi misserum eða allt þar til að aftur verður gengið að kjörborðinu árið 2026.
Spursmál hafa komið sér fyrir á facebook og þar geta áhorfendur lagt orð í belg, t.d. komið með tillögur að spurningum til borgarstjóra í aðdraganda þáttarins.
Hægt er að heimsækja síðu þáttarins á samfélagsmiðlinum með því að smella hér.