Gekk fram á sprengju í Hlíðarfjalli

Sprengjan er frá seinni heimstyrjöldinni og fannst í Hlíðarfjalli.
Sprengjan er frá seinni heimstyrjöldinni og fannst í Hlíðarfjalli. Ljósmynd/grenndargral.is

Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út í síðustu viku eftir að Brynjar Karl Óttarsson, grunn- og framhaldsskólakennari, fann breska sprengju í Hlíðarfjalli sem legið hafði þar frá seinni heimsstyrjöldinni.

Brynjar hefur sérstakan áhuga á sögu og fer reglulega í göngur í leit að minjum frá stríðinu.  

Jónas Þorvaldsson, yfirmaður sveitarinnar, útskýrir í viðtali við mbl.is að um sé að ræða sprengju úr sprengjuvörpu.

„Þessu er í rauninni sleppt ofan í hólk og þá skýst hún út úr honum,“ segir Jónas. Þrátt fyrir að sprengjurnar séu ekki mjög stórar er hættan mikil þegar þær springa.

Leifar af stríðinu 

„Við fáum tilkynningu um að þeir hafi fundið þetta og þeir sendu mynd. Vaktin hjá okkur greindi myndina og sér að þetta sé hættulegur hlutur og þá var sveitin send af stað til þess að eyða þessu,“ segir Jónas. 

„Þetta er töluvert algengt, það var mikið af æfingasvæðum á Íslandi á stríðsárunum og þetta eru bara leifar af því,“ bætir hann við.  

Mikið er um leifar frá þeim hermönnum sem dvöldu hér …
Mikið er um leifar frá þeim hermönnum sem dvöldu hér á stríðsárunum. Ljósmynd/grenndargral.is

Sprengjan þarf að springa

Þrátt fyrir að nokkrar slíkar sprengjur hafi fundist á Íslandi segir Jónas að ómögulegt sé að hreinsa öll svæðin þar sem æfingar voru haldnar. Séraðgerðasveit landhelgisgæslunnar hefur þó verið að vinna að því að hreinsa ákveðin svæði á Reykjanesskaga.

„Þetta er bara eitthvað sem við sitjum uppi með,“ segir Jónas.

Jónas útskýrir að til þess að eyða sprengjunni þá þarf hún að springa:

„Í þessu tilfelli þá notuðum við svona stefnuvirka sprengju til þess að eyða henni, til þess að valda sem minnstri sprengingu í rauninni. Það var nú bara tilkomið vegna þess að það var svo mikil þoka á svæðinu og erfitt að tryggja umhverfið, en venjulega sprengjum við þetta bara á svæðinu ef við getum því það er öruggast fyrir okkur og alla.“ 

Aldrei snerta hlutinn 

Ertu með einhver ráð til fólks ef það finnur sprengju?

„Númer eitt, tvö og tíu þegar maður finnur eitthvað svona er að snerta ekki hlutinn og leyfa honum bara að liggja þar sem hann er. Reyna að taka stað af honum ef fólk er með staðsetningartæki, ef ekki þá er fínt að merkja svæðið, ekki hlutinn. Það auðveldar okkur að finna hann og svo er rosalegt gott fyrir okkur að fá mynd,“ segir Jónas.

Hann leggur þó mestu áhersluna á það að tilkynna strax ef fólk finnur eitthvað sem það gæti trúað að sé sprengja.

„Ekki vera hrædd við að tilkynna, það er betra að þetta sé ekkert heldur en að það sé verið að skilja hættulega hluti eftir í umhverfinu. Við erum með vakt til þess að bregðast við þessu og fólk á ekkert að vera feimið við það að leita ráða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert