„Getur farið að gjósa hvenær sem er“

Hraun hefur runnið yfir vegi í grennd við Grindavík.
Hraun hefur runnið yfir vegi í grennd við Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er áframhaldandi svipuð þróun og við erum þannig í starfholunum að það geti farið að gjósa hvenær sem er,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Sjötta eldgosið síðan í desember á síðasta ári er yfirvofandi á Sundhnúkagígaröðinni en mælingar Veðurstofu Íslands sýna svipuð merki og fyrir síðustu eldgos á svæðinu.

Áætlað er að rúmmál kviku undir Svartsengi sé komið í 20 milljón rúmmetra og þá hefur skjálftavirkni á svæðinu farið vaxandi síðustu vikurnar.

Jarðskjálftavirkni á Sundhnúkagígaröðinni síðan 1. desember 2023.
Jarðskjálftavirkni á Sundhnúkagígaröðinni síðan 1. desember 2023. Graf/Veðurstofa Íslands

Fór tvær vikur fram yfir síðast

„Ef við horfum á síðasta atburð í maí þá fór hann alveg tvær vikur fram yfir áður en það fór að gjósa og það gæti alveg orðið einhver biðtími aftur núna,“ segir Benedikt.

Hann segir langlíklegast að gosið komi upp á svipuðum slóðum og í síðustu gosum.

„Við höfum sett upp sviðsmyndir þar sem þetta getur færst nær Grindavík en það er líklegast að þetta hagi sér svipað og áður. Við verðum samt að vera búin undir þann möguleika að hraun komist í gegnum varnargarðana án þess að það sé líklegasti möguleikinn,“ segir hann.

Aukið viðbragð á Veðurstofu

Benedikt segir að Veðurstofan hafi verið með aukið viðbragð síðustu tvær vikur enda sé mjög líklegt að það dragi senn til tíðinda.

„Það er aldrei hægt að segja að það séu hundrað prósent líkur á gosi en það er allt að benda í þá átt að það verði gos,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert