Margir sem ferðast hafa símasambandslausir um afskekktari byggðir landsins kannast við að hugsa með sér, hvað í ósköpunum myndi ég gera ef ég festist núna. Ingi Guðnason frá Bæjum á Snæfjallaströnd fékk að reyna það á ferðalagi um æskuslóðirnar um verslunarmannahelgina.
Hann neyddist til þess að ganga í miklu slagviðri um miðja nótt yfir kjarr og mýrlendi í um tuttugu kílómetra til þess að finna skjól og símsamband eftir að flætt hafði yfir veg við Kvíslá við Kaldalón.
„Ég kem inn að Kvíslá og þegar ég fer yfir brúnna sé ég að svona 200 metra frá mér er flóð yfir veginn. Ég fór og rölti af stað og reyni að rýna út í myrkrið til að kanna aðstæður. Það var gjörsamlega þannig að maður þyrfti að vera fuglinn fljúgandi til að komast yfir. Svo ég labba að bílnum aftur en þegar ég kem að honum þá er hann sokkin í holu sem hafði myndast þvert yfir veginn.
Hann er sokkinn þannig að holan er orðinn tóm og hann er sestur á kviðinn með bæði afturhjólin ofan í gjánna,“ segir Ingi í samtali við mbl.is um svaðilförina.
„Og hvað gera bændur þá?“
Ja, bændur virðast við öllu búnir.
„Sem betur fer þá var ég eins og alltaf með vetrargallann í skottinu og stígvél. Það tók nú svo sem smá tíma að troða sér í hann í helvítis slagviðrinu, en það tókst. Og svo var ekkert annað að gera en að labba til baka að Laugalandi og þetta eru einhvers staðar í kringum 20 kílómetrar,“ segir Ingi sem lagði af stað frá föstum bílnum rétt eftir miðnætti.
En ekkert símasamband er á svæðinu.
„Maður var bara eins og Palli einn í heiminum. Ég gat ekkert látið vita af mér eða neitt. svo það vissi enginn neitt þessa næstu klukkutíma.“
Hvernig leið þér?
„Ég hafði nú meiri áhyggjur af bílnum heldur en öllu öðru. Maður hafði svona áhyggjur af því ef fólk færi eitthvað að grennslast eftir manni og kæmi að bílnum þarna og enginn maður. Það var nú ekki góð tilhugsun heldur, en ég hafði meiri áhyggjur af bílnum, því ég átti alveg eins von á því að það myndi grafa meira undan honum þannig að hann stæði beint upp á endann. Þá þyrfti nú ekki að spyrja að leikslokum.“
Þegar Ingi kom að Ármúla, sem var næsti bær við, var enginn á bænum svo hann ákveður að fara yfir Selá. Hann segir ána hafa verið í gríðarlegum ham þessa nótt.
„Hún er eins og Mórillan, kemur undan Drangajökli og er jökulá, og þá vissi ég að eyrarnar við Laugarholt og Laugaland væru gjörsamlega í kafi. Ég ætlaði að fara stystu leið en þarna vissi ég að það væri ekki neinum nema fuglinum fært að fara þá leið svo ég þurfti að breyta um stefnu. Fara yfir háa melhóla, ofan í djúpar lægðir og kjarr og mýrlendi og kjaga svo upp háa grashóla og svo fjallshlíðina sem tekur við hvert af öðru þangað til ég komst upp á veg,“ segir Ingi.
„Þegar ég kom loksins upp á veginn tvo, þrjá kílómetra frá bæjunum, þá var ég orðinn það uppgefin að ég rétt staulaðist eitt hænufet áfram. Þetta tók á, en það vildi bara svo heppilega til að í fyrsta lagi, vera með gallann, og svo þekkti ég vel til aðstæðna þarna enda uppalinn þarna á þessum slóðum, þannig ég vissi alveg að hverju ég var að ganga þegar ég fór af stað.
Ef það hefði ekki verið þannig væri ég líklega ekki að tala við þig núna,“ segir Ingi, sem komst ekki á áfangastað fyrr en um klukkan sex um morguninn.
„Ég var nú svo sem ekkert að raska ró þeirra því ég kom svo snemma, um sex leytið, þannig ég gerði mig heimakominn og fór inn í bæinn og settist í góðan hægindastól sem var þar og sofnaði í fjóra tíma.“
Kom þeim ekkert á óvart að sjá þig þarna um morguninn?
„Þegar dóttir þeirra kemur í dyragættina og sér mig þá segir hún, þegar ég kem nær henni og heilsa henni, „guð minn góður, ég hélt ég væri að sjá draug,““ svarar Ingi og hlær.
„Ég láði henni það ekki því ég var orðin gjörsamlega uppgefinn þannig lagað séð. En hún náttúrulega býður mér inn og þegar ég segi henni hvernig á þessu öllu stóð þá hafði hún samband við Þórð, pabba sinn. Hann talaði aðeins við mig og sagðist ætla að tala við Vegagerðina á Hólmavík og hringja svo í mig aftur að því búnu. Þannig vorum við nú í sambandi þarna fram yfir hádegið,“ segir Ingi sem fékk bílinn aftur um sex leytið.
„Þeir létu mig vita að bíllinn væri eins og ég skildi við hann og þá létti mér alveg rosalega. Og þetta tók nánast sólarhring. Þeir voru til fram undir ellefu að laga veginn þannig það var svona slagfært að komast yfir hann. Ég komst út í Dalbæ, þar sem ég gisti í félagsheimilinu, um ellefu leytið um kvöldið en þá vantaði bara klukkutíma upp á sólarhringinn.“
Það mætti segja að þetta hafi heldur betur verið ævintýri?
„Já og eiginlega meira en að segja það. Maður er betur búinn en þeir hefðu verið fyrir 100 árum. Það hefði alveg getað farið svo að ef að ég hefði ekki verið með gallann og stígvélin þá væri ég ekkert að tala við þig núna,“ segir Ingi að lokum.