Hleypur fyrir hetjuna sína

Birkir Pálsson og Sindri Pálsson.
Birkir Pálsson og Sindri Pálsson. Ljósmynd/Aðsend

„Hann er algjör hetja,“ segir Birkir Pálsson um Sindra, stjúpson sinn, sem hann ætlar að hlaupa tíu kílómetra fyrir í Reykjavíkurmaraþoninu.

Tæplega hundrað manns hafa skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið til þess að hlaupa fyrir hjálpatækjasjóð Sindra og Birkir segir þakklætið vera efst í huga þegar hann hugsar um öll þau sem ætla að hlaupa fyrir stjúpson hans.

Þeir sem kynnast Sindra, það er bara eitthvað við hann, hann bara einhvern veginn nær manni alveg,“ segir Birkir í samtali við blaðamann mbl.is.

„Það er svo ótrúlega mikið og gott fólk í kringum hann, í rauninni alls staðar þar sem hann er,“ bætir hann við.

Lamaðist fyrir neðan axlir á síðasta ári

Hjálpatækjasjóðurinn var stofnaður fyrir hinn 15 ára gamla Sindra Pálsson. Hann fæddist með heilkennið Warburg Micro en það veldur sjónskerðingu, einhverfu og lágri vöðvaspennu.

Sindri varð fyrir mænuskaða og lamaðist fyrir neðan axlir vegna aðgerðar á Landspítalanum á síðasta ári. Þá varð hann fyrir miklu áfalli, veiktist alvarlega og varði tveimur mánuðum á gjörgæsludeild.

Lömunin er varanleg og þarfnast Sindri nú aðstoðar og umönnunar allan sólarhringinn.

Hafa safnað 2,5 milljónum króna

Sjóðurinn verður nýttur í að auka lífsgæði Sindra. Hingað til hefur þeim tekist að safna tæplega tveimur og hálfri milljón króna.

Birkir segir fjáröflunina ganga ótrúlega vel og að það sé magnað hvað það sé mikið af fólki að hlaupa fyrir Sindra. Hann segir Sindra vera ótrúlega duglegan dreng sem hafi sýnt mikið æðruleysi í þessu ferli.

Spurður hvort hóparnir muni hlaupa saman segist hann reikna með því að hópurinn sem hleypur tíu kílómetra muni gera það, þar sem þau séu flest að hlaupa þá vegalengd.

Aðspurður segir Birkir að það verði „eitthvað húllumhæ eftir hlaupið“ og að öllum sem hlaupa fyrir Sindra verði boðið.

Hægt er að heita á Birki hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert