Keypti 175 skothelda hjálma á 34 milljónir

Hjálmarnir sem ríkislögreglustjóri pantaði eru af sömu gerð og FBI …
Hjálmarnir sem ríkislögreglustjóri pantaði eru af sömu gerð og FBI notar í Bandaríkjunum. Samsett mynd/Eggert/TST Protection

Ríkislögreglustjóri keypti 175 skothelda hjálma fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var í Hörpu á síðasta ári.

Kostnaður við hjálmana og búnað þeim tengdum nam 195.475 pundum, eða um 34 milljónum króna ef miðað er við gengið í janúar 2023.

Þetta kem­ur fram í sölu­reikn­ing­um sem rík­is­lög­reglu­stjóri hef­ur veitt mbl.is aðgang að eft­ir að hafa upp­haf­lega hafnað því að birta gögn­in.

Úrsk­urðar­nefnd upp­lýs­inga­mála skar úr um málið og var rík­is­lög­reglu­stjóra gert að birta umbeðin gögn.

Hjálmar sem FBI notar

Hjálmarnir voru keyptir af breska fyrirtækinu TST Protection.

Ríkislögreglustjóri keypti 55 stykki af Busch AMP-1 TP hjálmum þann 12. janúar 2023 ásamt aukabúnaði á borð við andlitshlífar og poka. Kostaði það 107.635 pund, eða 18.696.200 krónur.

Þessi tegund er til dæmis notuð af alríkislögreglunni í Bandaríkjunum (FBI). 

Busch AMp-1 tp hjálmur.
Busch AMp-1 tp hjálmur. Ljósmynd/TST Protection

Ríkislögreglustjóri pantaði svo fleiri hjálma af TST þann 31. janúar. Þá voru pantaðir 120 hjálmar af gerðinni Busch AMP-1 E ásamt aukabúnaði tengdum hjálmunum. Kostaði það 87.840 pund, eða 15.268.349 krónur.

Eiga hjálmarnir að vera skotheldir gegn 9 mm byssukúlum og 44 Magnum. 

Busch AMp-1 e hjálmur.
Busch AMp-1 e hjálmur. Ljósmynd/TST Protection

Hjálmar og föt kostuðu rúmlega 46 milljónir

Inn á vefsíðu TST má sjá myndskeið og auglýsingar um hjálmana og hvernig þeir geta nýst lögreglu og sérsveit á vettvangi. Þá er sýnt hvernig fyrrnefndar tegundir verjast gegn byssukúlum. 

mbl.is greindi einnig frá kaupum ríkislögreglustjóra á fatnaði sem nam 12.366.643 krón­um. Þar á meðal voru keypt 146 smellubindi sem kostuðu um 313 þúsund krónur.

Kostnaður við kaup á hjálmum, búnaði þeim tengdum, og fatnaði nam alls 46.331.192 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka