Land risið um nær metra: Merki um kvikusöfnun

Benedikt segir merki um að kvika safnist undir niðri við …
Benedikt segir merki um að kvika safnist undir niðri við Öskjuvatn. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er talsverður hraði og við teljum að þetta segi okkur að kvika sé mjög líklega að safnast fyrir á um þriggja kílómetra dýpi norðvestan við Öskjuvatn.“

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir landris í Öskju benda til þess að kvika sé að safnast þar undir.

Benedik segir að hægt hafi á landrisi í Öskju fyrir um ári síðan en hafi haldið nokkuð stöðugt áfram síðan þá. Hann segir að þar sem landrisið mælist mest sé það komið í 0,8 metra síðan í júlímánuði 2021.

Meiri skjálftavirkni

Hann segir að ekki séu merki um miklar breytingar í skjálftavirkni.

„Það er meiri skjálftavirkni eftir að landrisið hófst en við erum ekki sjá sérstakar breytingar í jarðhitavirkni í Öskju,“ segir Benedikt.

Síðasta gos í Öskju varð árið 1962 en áður urðu nokkur tiltölulega lítil hraungos gos þar í byrjun 20. aldar. Stórt sprengjugos varð í Öskju árið 1875.

Skelfur við Bárðarbungu

Talsverð skjálftavirkni hefur verið nálægt Bárðarbungu það sem er af degi en þar hafa fimm jarðskjálftar mælst í dag, sá sterkasti 2,5 af stærð.

„Síðan holuhraunsgosinu lauk þá hafa mælst reglulega stórir skjálftar, oft yfir fimm að stærð. Tíðni skjálfa hefur þó farið minnkandi en þeir koma reglulega og skjálftahrinur,“ segir Benedikt.

Hann segir að talsverð jarðhitavirkni sé í Bárðarbungu og hún hafi aukist eftir gosið sem og landris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert