Íbúar í Hafnarfirði afhentu Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar undirskriftalista í dag þar sem 6.090 manns skoruðu á bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar að falla frá áformum um Coda Terminal verkefnið ellegar setja það í íbúakosningu.
Coda Terminal er verkefni á vegum fyrirtækisins Carbfix.
„Markmiðið er að binda árlega um þrjár milljónir tonna af koltvísýringi í jörðu við Straumsvík, á varanlegan og öruggan hátt, í þágu baráttunnar gegn loftslagsvánni,“ sagði Ólafur Elínarson, samskiptastjóri Carbfix, um verkefnið í samtali við mbl.is í maí.
mbl.is greindi svo frá í júní að Hafnfirðingar hefðu margir áhyggjur af þessu umfangsmikla loftslagsverkefni fyrirtækisins þar sem fyrirtækið hygðist koma upp tíu borteigum nálægt íbúabyggð í Hafnarfirði svo hægt sé að dæla innfluttum koltvísýring niður í jörðina.
Í fréttatilkynningu sem mbl.is barst í kvöld vegna afhendingarinnar segir að þetta risastóra verkefni eigi sér engar hliðstæður á Íslandi, né í heiminum öllum, og mikið sé um óvissuþætti sem tengjast verkefninu vegna áhrifa þess á umhverfi og íbúa bæjarins.
„Fyrirhugað er að dæla niður og binda í berg í mikilli nálægð við íbúðarbyggð við Vellina í Hafnarfirði, 3 milljónir tonna á ári af innfluttu koldíoxíði frá verksmiðjum í Evrópu. Íbúar hvetja bæjarstjórn Hafnarfjarðar til að virða íbúalýðræðið og setja verkefnið í heild sinni í íbúakosningu,“ segir enn fremur í tilkynningunni sem rituð er, fyrir hönd mótmælahópsins, af þeim Ragnari Þór Reynissyni og Arndísi Kjartansdóttur.
Ábyrgðarmenn undirskriftasöfnunarinnar eru þau Ragnar Þór og Arndís.