Heilbrigðiseftirliti Suðurlands barst tilkynning þann 7. ágúst síðastliðinn um að einstaklingar sem höfðu gist á Rangárvöllum í lok júlí hefðu veikst af iðrasýkingu.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilbrigðiseftirlitsins en þar segir að farið hafi verið samdægurs í eftirlitsheimsókn og vatnsýni tekin til rannsóknar.
„Fyrstu niðurstöður lágu fyrir föstudaginn 9. ágúst og bentu til E. coli mengunar í vatni. Í kjölfarið fengu staðarhaldarar tilmæli um að sjóða allt neysluvatn og að upplýsa gesti um mögulega mengun. Næsta dag barst staðfesting þess að E. coli hafi greinst í vatnssýnum en þó í litlu magni. Þessar niðurstöður benda til mögulegrar mengunar í neysluvatni á svæðinu sem kallar á frekari rannsóknir og aðgerðir,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að Matvælastofnun og sóttavarnalæknir hafi verið upplýst um málið 12. ágúst og daginn eftir hafi verið boðað til fundar stýrihóps í samræmi við verklega við rannsóknir á vatns- eða matarbornum hópsýkingum.
Á þeim fundi voru fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Matvælastofnunar, sóttvarnalæknis, umdæmis-/svæðislæknar Suðurlands og sýkla- og veirufræðideildar Landspítala.
„Á fundinum kom fram að um nokkurn fjölda fólks virðist vera að ræða sem voru á ferðalagi á þessu landsvæði en uppruni og orsök veikindanna hafa ekki verið staðfest. Upplýsingasöfnun var skipulögð með það að markmiði að kortleggja umfang málsins, þar með talið fjölda og ferðir þeirra sem veiktust. Heilsugæslan skipuleggur sýnatökur frá einstaklingum sem tengjast málinu,“ segir enn fremur í tilkynningunni.