Samið um lands- og vindorkuréttindi

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrita samninginn …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrita samninginn í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Forstjóri Landsvirkjunar undirritaði í dag samning við íslenska ríkið um lands- og vindorkuréttindi vegna Búrfellslundar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun en þar segir að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkur  samningur er gerður en Búrfellslundur liggur innan þjóðlendu. Gildistími samningsins er 35 ár með möguleika á framlengingu um 15 ár.

Fagnaðarefni

„Það er ákaflega ánægjulegt að samkomulag um lands- og vindorkuréttindi sé í höfn. Landsvirkjun hefur vandað mjög til verka við undirbúning Búrfellslundar og samningurinn er mikilvægur áfangi í átt að því að verkefnið verði að veruleika,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði við undirritunina að það væri fagnaðarefni að vindorkan verði þriðja stoðin í orkukerfi landsins.

Stjórnin tekur ákvörðun

Orkustofnun gaf út virkjunarleyfi fyrir Búrfellslund í vikunni. Í kjölfarið verður sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Rangárþings ytra.

Ef það fæst tekur stjórn Landsvirkjunar endanlega ákvörðun um hvort ráðist verði í verkefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert