Frétta- og umræðuþátturinn Spursmál fer í loftið á nýjan leik föstudaginn 16. ágúst næstkomandi. Útsendingin hefst kl. 14.00 á mbl.is, líkt og verið hefur og verður þátturinn í kjölfarið aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum auk YouTube.
Verður þátturinn á dagskrá á föstudögum í allan vetur.
Spursmál hófu göngu sína 1. desember í fyrra og eru þættirnir nú orðnir 30 talsins. Umfjöllunarefni þáttarins eru af ýmsum toga en fastur liður er að valinkunnir gestir fara yfir helstu fréttir vikunnar, bæði hér heima og erlendis. Þá er í seinni hluta þáttarins fjallað um og rætt við fólk um álitamál sem ofarlega eru á baugi hverju sinni.
Stjórnandi þáttarins er Stefán Einar Stefánsson en viðtöl hans við frambjóðendur til embættis forseta Íslands vöktu verðskuldaða athygli síðastliðið vor.