Stærsta íbúðaverkefnið sem hlotið hefur svansvottun

MótX hlaut í dag sitt fyrsta Svansleyfi fyrir nýbyggingu að …
MótX hlaut í dag sitt fyrsta Svansleyfi fyrir nýbyggingu að Hringhamri í Hafnarfirði. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbæ

Nýbyggingin að Hringhamri 9-19 á Hamranessvæðinu í Hafnarfirði er stærsta
íbúðaverkefni sem hlotið hefur svansvottun á Íslandi. 36 íbúðir voru vottaðar og hafa aldrei fleiri íbúðir hlotið vottunina í einu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, var viðstaddur afhendinguna.

„Það er góð fjárfesting þegar bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ákveða það að veita afslátt af gjöldum,“ er haft eftir Guðlaugi Þór.

Alls eru 30% af byggingarverkefnum í svansvottunarferli í Hafnarfirði og alls 45% íbúðarhúsnæðis í vottunarferli, samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar.

Endurgreiða hluta lóðarverðsins

„Bæjarfélagið hefur lagt sitt af mörkum til að hvetja til umhverfisvænna bygginga með því að endurgreiða hluta lóðaverðsins. Þessi áfangi er uppskera þeirrar ákvörðunar. Ég óska MótX til hamingju,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Fram kemur í tilkynningu frá Svaninum MótX hafi í dag hlotið sitt fyrsta svansleyfi fyrir nýbyggingu að Hringhamri í Hafnarfirði. Þar kemur fram að verkefnið sé eitt af þremur áföngum fyrirtækisins sem í svansvottunarferli.

„Við hjá MótX höfum hingað til byggt töluverðan fjölda íbúða í samræmi við kröfur Svansins hvað varðar heilnæmt loft með loftræsikerfum, ljósastýringu, hljóðvist og svo framvegis og vorum við því komnir vel á veg með að uppfylla kröfur Svansins,“ er haft eftir Þresti Má Sigurðssyni, verkefnastjóra hjá MótX, en í heildina verða 164 íbúðir vottaðar þegar öllum áföngunum er lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert