Nú standa yfir framkvæmdir 1. áfanga á Geysissvæðinu með gerð göngustíga. Eru þeir hannaðir þannig að sem minnst rask verði á hverasvæðinu, með því að láta þá „svífa yfir“.
Lögð hefur verið ný leið að Strokki og liggja stígarnir að aðkomutorgi til móts við Þjónustumiðstöðina Geysi.
Verkið verður unnið í þremur áföngum og áætluð verklok allra áfanganna eru í byrjun maí 2025.
Í öðrum áfanga verður torgið byggt. Þar verða einnig settir setbekkir og brú yfir læk sem liggur fram hjá. Útboði er ekki lokið en kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir 120 milljónum í þann áfanga. Í 3. áfanga verður farið í framkvæmdir sem snúa að aðbúnaði ferðafólks við Strokk.
Umhverfisstofnun er framkvæmdaraðili og Framkvæmdasýslan Ríkiseignir (FSRE) er umsjónaraðili.
Landmótun sf. sá um hönnun og Wiium ehf. er verktaki 1. áfanga. Tilboð þeirra var upp á 247 milljónir, sem var aðeins undir kostnaðaráætlun.
Áætlaður kostnaður við 2. áfanga er sem fyrr segir 120 milljónir króna.