„Þetta er svo mikil eyðilegging“

Þóra Valsteinsdóttir.
Þóra Valsteinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Þóra Valsteinsdóttir vaknaði á heimili sínu í Aþenu í Grikklandi á mánudag hafði ösku rignt yfir borgina og mikil brunalykt var í loftinu. 

Þóra hefur búið í Grikklandi í rúm 42 ár og rekur, ásamt fjölskyldu sinni ferðaþjónustu fyrirtæki. Segir hún það sorglegt að horfa upp á eyðilegginguna sem fylgt hefur miklum skógareldum norðan og norðaustan Aþenu.

Sjálf býr Þóra sunnan megin við borgina.

Segir Þóra í samtali við mbl.is að það sé fyrst í dag sem að brunalyktin sé að hverfa með norðanáttinni.

„En það er búin að vera brunalykt í loftinu þó að þetta sé svona langt í burtu og svakalega mikil aska sem kom,“ segir Þóra.

Kviknuðu út frá blossa frá rafmagnsstaur

Þóra segir að sumarið hafi verið heitt í Aþenu. Hún búi sjálf við sjóinn um 30 kílómetra frá borginni og hjá henni hafi séu um 37 gráða hiti sem þýði að hitinn sé líklegast nær 40 gráðum í borginni og þá hafi ekki rignt síðan seint í apríl eða í byrjun maí. Hættan á skógareldum sé því alltaf mikil.

„Um leið og það kemur bara smá neisti þá fuðrar allt upp,“ segir Þóra og nefnir jafnframt að nýjustu upplýsingar bendi til þess að eldarnir hafi kviknað við blossa frá rafmagnsstaur. Þeir séu gamlir og gerðir úr viði og því eru eldarnir fljótir að breiðast út.

Mikill reykur hefur fylgt eldunum og mikil aska lá yfir …
Mikill reykur hefur fylgt eldunum og mikil aska lá yfir hverfinu þar sem Þóra býr. AFP/Angelos Tzortzinis

„Þegar það var sem verst, aðfararnótt mánudags, þá logaði eldur á 163 stöðum. Hann dreifðist alveg yfir rosalega stórt svæði í raun og veru.“

Aðspurð segir Þóra öllum finnist málið alveg hræðilegt en að vont sé hve fljótt hlutirnir séu gerðir pólitískir í landinu.

„Það kemur alltaf rosalega mikil gagnrýni á stjórnina hverju sinni. Það hefur verið vinstri stjórn og jafnaðarmannastjórn og hægri stjórn og það hafa alltaf verið eldar,“ segir Þóra og bætir við.

„Það eina sem hægt er að gagnrýna í þetta skiptið er, að ég held, að þeir hefðu átt að fá hjálp frá öðrum löndum aðeins fyrr.“

Hafa reynt að bæta forvarnir

Segir Þóra að alltaf komi upp mikil sorg í samfélaginu þegar upp koma skógareldar.

„Fólk horfir mikið á þetta í sjónvarpinu og það náttúrulega vorkennir þessu blessaða fólki sem þurfti að yfirgefa heimili sín.“

Að sögn Þóru hefur þó eitthvað verið um forvarnir upp á síðkastið til að reyna að hafa meiri stjórn á eldunum.

„Eldarnir eru ekki eins stórir og þeir voru einu sinni og dreifast ekki um eins mikið landssvæði. Það eru meiri forvarnir í gangi núna en hafa verið. Þeir eru farnir að nota dróna til að fylgjast með og þeir fjölguðu slökkviliðsmönnum sem að eru náttúrulega út um allt til dæmis í mínu hverfi.“

Þóra segir mikla sorg grípa um sig í landinu þegar …
Þóra segir mikla sorg grípa um sig í landinu þegar skógareldar geisa. AFP/Angelos Tzortzinis

Fólk verði líka að líta í sinn eigin barm

Breyti það þó ekki því að mikil reiði og sorg taki yfir þegar fólk sjá þá eyðileggingu sem fylgir í kjölfar skógareldanna.

„Bara að sjá eyðilegginguna, þetta er svo mikil eyðilegging. Bæði á gróðri og húsum. Sem betur fer var hægt að bjarga öllum nema einni konu. Það var ein kona sem að festist inn í byggingu og dó. Svo náttúrulega eru það öll dýrin.“

Segir Þóra að fólk verði þó líka að líta í sinn eigin barm og huga vel að eldvörnum. Tekur hún sem dæmi reykingafólk sem kasti frá sér sígarettustubbum sem dæmi en mikill þurrkur er í Grikklandi og lítið sem þarf til til að eldar komi upp. Einnig verði þá fólk að passa hvernig skuli henda rusli. Þá sé ekki svarið að saka ríkið um hitt og þetta.

„Þegar þetta er komið úr böndunum, þá er ofboðslega erfitt að ná utan um þetta,“ segir Þóra að lokum.

„Bara að sjá eyðilegginguna, þetta er svo mikil eyðilegging. Bæði …
„Bara að sjá eyðilegginguna, þetta er svo mikil eyðilegging. Bæði á gróðri og húsum,“ segir Þóra. AFP/Angelos Tzortzinis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert