Oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir mikla áhættu fólgna í því að staðsetja vindorkugarðinn Búrfellslund á svæði þar sem mest raforkuframleiðsla eigi sér stað sem sé jafnframt eitt virkasta eldfjallasvæði landsins.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, en Búrfellslundur er áformaður við Vaðöldu sunnan Sultartangastíflu í Þjórsá.
Sveitarstjórnin muni á næsta fundi sínum skoða hvort virkjunarleyfi fyrir vindorkugarðinum verði kært til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Orkustofnun gaf út virkjunarleyfi á mánudag og er kærufrestur 30 dagar.
Haraldur Þór Jónsson er oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Hann gagnrýnir samskipti Orkustofnunar og Landsvirkjunar við Rangárþing ytra, en uppbygging vindorkugarðsins er áformuð innan þess sveitarfélags. Skeiða- og Gnúpverjahreppur sitji hins vegar uppi með áhrifin af honum.
„En við höfum ekkert um málið að segja og teljum að þetta sé fordæmisgefandi fyrir það sem koma skal. Munu sveitarfélög geta tekið ákvarðanir um að staðsetja vindorkugarða þar sem þeim hentar, en ekki sveitarfélaginu við hliðina?“ spyr hann.
Landvernd hefur einnig gagnrýnt áformin um uppbyggingu Búrfellslundar og kalla samtökin eftir því að stjórnvöld geri framtíðaráætlanir um vindorkumál á Íslandi áður en virkjunarleyfi verði gefið út. Telja samtökin því ótímabært að gefa út virkjunarleyfi til vindorkuframleiðslu á þessu stigi málsins.
Landvernd skilaði inn umsögnum um málið á fyrri stigum og benti þá á að virkjunarhugmyndin væri sannarlega á svæði þar virkjun hefði mikil áhrif á víðerni á miðhálendi.
Benda samtökin á að þó að svæðið sé að stórum hluta þegar raskað af stórum virkjunum yrðu sjónræn áhrif af vindorkuverinu mikil og myndi það sjást víða að. Að mati Landverndar má ekki skerða verndargildi miðhálendisins og möguleika á stofnun þjóðgarðs á svæðinu.
„Landvernd telur að stærð orkuvera, hæð mastra, fjöldi þeirra, staðsetning, eignarhald og orkunýting eigi heima í langtímastefnumótun. Það er óábyrgt að brjóta blað í orkumálum með byggingu vindorkuvera án þess að stefnumótun liggi fyrir,“ segir í tilkynningu Landverndar.
Frekari umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu í dag.