Tíu slösuðust í tíu umferðarslysum

Lögreglu hvetur vegfarendur til að fara varlega í umferðinni.
Lögreglu hvetur vegfarendur til að fara varlega í umferðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tíu vegfarendur slösuðust í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Í átta tilfellum er um hjólreiðamenn að ræða.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Aðfararnótt sunnudags, 4. ágúst, féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Hafnarstræti í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 6. ágúst féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á Hverfisgötu í Hafnarfirði og var hann fluttur á slysadeild.

Þá var tilkynnt um þrjú slys miðvikudaginn 7. ágúst. Um morguninn varð árekstur á gatnamótum Klukkurima og Langarima þar sem bifreið og reiðhjóls lenti saman og hjólreiðamaðurinn fluttur á slysadeild.

Seinna sama dag varð árekstur bifreiðar og reiðhjóls í Borgartúni í Reykjavík og var þar einnig hjólreiðamaðurinn fluttur á slysadeild. Um kvöldið varð svo árekstur bifreiðar og reiðhjóls í Laxatungu í Mosfellsbæ, við Kvíslartungu og hjólreiðamaðurinn fluttur á slysadeild.

Mikilvægt að vegfarendur fari ávallt varlega

Fimmtudaginn 8. ágúst féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg á milli Stekkjarbakka og Elliðaár í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Tilkynnt var um tvö umferðarslys föstudaginn 9. ágúst. Um morguninn féll hjólreiðamaður af reiðhjóli þegar hann rakst utan í annað reiðhjól þar sem hjólahópur var á ferðinni á Bæjarbraut í Garðabæ, nærri Krókamýri. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Stuttu eftir hádegi sama dag var bifreið ekið vestur Þverholt í Mosfellsbæ, frá hringtorgi við Vesturlandsveg, og aftan á aðra bifreið sem var kyrrstæð vegna umferðar fram undan. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Voru einnig tvö umferðarslys tilkynnt á laugardeginum, 10. ágúst. Um sexleytið var bifreið ekið um bifreiðastæði í Skógarlind í Kópavogi og á rafmagnsreiðhjól. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Stuttu síðar var bifreið ekið um Veltusund í Reykjavík og utan í gangandi vegfaranda sem var fluttur á slysadeild.

„Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert