Tíu björgunarsveitir hafa verið ræstar út vegna neyðarboðs sem kom frá göngumanni í Kerlingarfjöllum.
Svartaþoka er á svæðinu og týndi göngumaðurinn slóðinni. Þar að auki er slæmt símasamband en honum tókst þó að senda staðsetningarhnit til viðbragðsaðila.
Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg, í samtali við mbl.is.
Útkallið barst til Landsbjargar klukkan 19.30 og segir Jón Þór sveitir enn vera á leið á vettvang. Þar sem fremur nákvæm staðsetning sé fyrir hendi ætti ekki að vera of mikill vandi að finna einstaklinginn sem um ræðir. Þó sé á reiki hvort um einn eða tvo göngumenn er að ræða.
Stutt er síðan nærri tvö hundruð manns tóku þátt í leit í Kerlingarfjöllum vegna neyðarboðs sem reyndist vera falsboð.
Jón Þór segir að ekki sé um slíkt að ræða í þetta sinn, samband hefur náðst við viðkomandi göngumann.
Uppfært klukkan 23.35: Að sögn Jóns Þórs eru fyrstu björgunarsveitir að nálgast mennina. Halda þeir kyrru fyrir og halda á sér hita með því að ganga á staðnum þar til björgunarsveitir mæta á staðinn.