Veruleikinn annar en „í hugarheimi“ Bjarna

Þorbjörg tekur ekki undir orð Bjarna.
Þorbjörg tekur ekki undir orð Bjarna. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er farinn að fjarlægjast sín gömlu gildi að mati Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar. Augljóst sé að útgjaldaukning stjórnvalda á síðustu árum hafi kynnt undir verðbólgu.

Bjarni sagði í viðtali við mbl.is í síðustu viku að umræða um þátt ríkisútgjalda í stöðu efnahagsmála væri á villigötum. Sagði hann að af­komu­bati rík­is­sjóðs ár frá ári væri birt­ing­ar­mynd aðhalds í rík­is­fjár­mál­un­um.

„Þannig rík­is­fjár­mál­in hafa verið að hjálpa til við að draga úr verðbólgu í land­inu und­an­far­in tvö ár, að lág­marki,“ sagði Bjarni.

„Stefnt beinlínis að níu ára hallarekstri“

Þor­björg tekur ekki undir orð Bjarna.

„Ég myndi segja að formaður Sjálfstæðisflokksins sé kominn dálítið langt frá sínum gömlu kennimerkjum og jafnvel kennitölu, þegar menn eru bara að standa teinréttir þrátt fyrir að það er stefnt beinlínis að níu ára hallarekstri á ríkissjóði,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Hún segir að ef skoðaðar séu hallatölur, verðbólgutölur og vaxtastig sé ljóst að veruleikinn sé annar en „í hugarheimi formanns Sjálfstæðisflokksins“.

Þingsetning verður 10. september.
Þingsetning verður 10. september. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vaxtastig eins og í „stríðshrjáðum ríkjum“

Þorbjörg segir að það hafi verið viðvarandi hallarekstur á ríkissjóði allan þann tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn og Framsókn hafa setið saman í ríkisstjórn.

„Það er ekki fyrr en haustið 2026 sem íslensk stjórnvöld sjá fyrir sér að geta náð verðbólgu að sínum markmiðum. Það verður þá eftir nánast 80 mánaða samfellt verðbólgutímabil, sem er eitt það lengsta í sögunni. Íslenskur almenningur býr við vaxtastig og vaxtabyrði sem helst þekkist í stríðshrjáðum ríkjum,“ segir hún.

Snýst ekki um skoðanir heldur staðreyndir

Ríkisútgjöld voru 751 milljarður árið 2017 og í ár eru áætlað að þau verði 1.491 milljarður. Spurð hvort að þessi útgjaldaaukning valdi því að verðbólgan sé þrálátari hér á landi vegna þessarar útgjaldaaukningar segir Þorbjörg:

„Tvímælalaust hluti af sögunni, já. Við sem sitjum í fjárlaganefnd höfum auðvitað hlustað á fjármálaráð, safn óháðra fjármálasérfræðinga, við höfum hlustað á umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði og frá verkalýðshreyfingunni allri,“ segir hún og bætir við:

„Allir þessir aðilar eru sammála um það að ríkisfjármálin spila stóra rullu í því hver staðan er. Við erum endalaust að sitja aukafundi þar sem er verið að boða frekari lántökur. Þannig þetta er ekkert spurning um skoðanir og sjónarmið, heldur staðreyndir máls.“

Að lokum bendir hún á það að yfir 100 milljarðar af útgjöldum ríkissjóðs í ár verði varið í vaxtakostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert