Viljayfirlýsing vegna rafmagnsflugs undirrituð

Viljayfirlýsingin var undirrituð af ráðherrum og ráðuneytisstjóra í Gautaborg í …
Viljayfirlýsingin var undirrituð af ráðherrum og ráðuneytisstjóra í Gautaborg í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Viljayfirlýsing er varðar þróun rafmagnsflugs hefur verið undirrituð af samgönguráðherrum Norðurlandanna. 

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að þróun rafmagnsflugs sé lykillinn að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá er greint frá því að Norðurlandaþjóðirnar skuli vinna saman að reglugerðum til þess að koma rafmagnsflugi á framfæri, vera talsmenn breytinganna og styðja við viðeigandi iðnaði til þess að ríkin geti orðið leiðtogar í þessum efnum, ásamt fleiru. 

Á vef Stjórnarráðsins segir að náið samstarf hafi farið fram, á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og stofnanna hennar, um að efla rafmagnsflug. Norrænn vettvangur fyrir þetta samstarf heitir Nordic Network for Electric Aviation og taka stjórnvöld, flugrekendur og fleiri þátt í því. 

Halda samstarfinu áfram af krafti

„Samgönguráðherrar Norðurlandanna undirrituðu viljayfirlýsingu árið 2022 um að stefna að því að þróa kolefnislausar flugleiðir á Norðurlöndum fyrir árið 2030. Yfirlýsingin nú er til staðfestingar því að Norðurlöndin hyggist halda samstarfi sínu áfram af krafti,“ segir á vef Stjórnarráðsins. 

Aðalsteinn Þorsteinsson, ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins, undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd ráðherra í Gautaborg í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert