Almenningur ekki í hættu en vel fylgst með

Hægt er að koma í veg fyrir smit með bólusetningu. …
Hægt er að koma í veg fyrir smit með bólusetningu. Sóttvarnalæknir hyggur þó ekki á bólusetningarátak. AFP/Patrick T. Fallon

Sóttvarnalæknir segir að fólk á Íslandi sé ekki í hættu á að greinast með apabólu, eða MPX-veiruna. Þó sé vert að fylgjast með stöðunni og ekki útilokað að veiran muni berast hingað til lands.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hef­ur lýst yfir alþjóðlegu neyðarástandi vegna vax­andi fjölda til­fella veirunnar í Afr­íku. Eitt tilfelli apabólu var staðfest í Svíþjóð í dag, 

Á vef embætti landlæknis kemur fram að í byrjun árs 2023 var gerð breyting á nafni sjúkdómsins apabólu og heitir sjúkdómurinn nú MPX-veirusýking en veiran MPX-veira.

Á ensku kallast sjúkdómurinn og veiran nú mpox.

Nýtt afbrigði

Seinasti MPX-faraldur gekk yfir árið 2022 og greindist þá veiran á Íslandi. Útskýrir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir að þá hafi apabóla smitast með kynlífi, en fyrir það hafi hún almennt borist með nagdýrum. 

Guðrún segir að um annan stofn sé að ræða í ár en árið 2022. Þá var um að ræða stofn sem kallast 2B.

„Það sem er í gangi núna er að þetta er aðallega stofn 1 og hann hefur hingað til ekki dreifst með kynlífi, en núna eru að sjást smit með afbrigði af þeim stofni, sem sagt 1B og það hefur verið að dreifast með kynlífi,“ segir Guðrún.

Því segir hún að um ákveðna óvissu sé að ræða því ekki sé vitað fyrir vissu hvernig veiran af þessum stofni muni hegða sér.

„Af því að þarf töluverða nánd, það þarf snertingu til að smitast, þá er þetta ekki eitthvað sem við eigum von á að fari alveg á flug einn, tveir og þrír. Alls ekki,“ segir hún.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir mbl.is/Hallur Már

Getur smitast út frá snertingu við hluti

Það sem einkennir MPX-veiruna eru útbrot sem geta verið alls staðar á líkamanum.

„Þau [útbrotin] eru í andliti, höndum, fótum, geta verið í kringum augun, kringum endaþarm, kynfæri og þetta kemur svona eins og bólur, þetta byrjar þannig og svo eru blöðrur og svo verður þetta eins og sár og hrúður sem síðan dettur af, þornar upp og það er sérstaklega smitandi ef að það er snerting við þessi útbrot,“ segir Guðrún.

Veiran getur einnig smitast út frá snertingu við hluti eða efni eins og handklæði og rúmfatnað.

Veirunni fylgja önnur einkenni eins og verkir í kringum þessa staði sem útbrotin eru, hiti, eitlabólgur, höfuðverkur og svo almenn flensueinkenni.

Útbrotin geta svo komið á undan eða eftir þessum einkennum og því er ekki um neitt ákveðið mynstur að ræða og því snúið að greina tilfellin.

„Læknar og heilbrigðisstarfsfólk þurfa að vera vakandi ef fólk kemur með útbrot sem eru kannski ekki útskýrð og hefur sögu sem að hugsanlega getur stutt þetta. Þá þarf að vera vakandi fyrir því að taka sýni í rannsókn,“ segir Guðrún.

Eins segir hún að fólk þurfi að vera vakandi og fara til læknis og fá rannsókn ef um MPX-veiruna gæti hugsanlega verið um að ræða.

„En ég endurtek að almenningur er ekki í hættu eins og er, þetta er ekki þannig að við eigum von á eða erum núna að undirbúa okkur fyrir einhvers konar dreifingu á þessu,“ segir sóttvarnalæknir.

Eitt tilfelli á Íslandi í fyrra

Guðrún segir líkur á að veiran berist til Íslands séu ekki miklar, en útilokar þó ekkert. „Það sem gerðist þarna 2022, þá fór apabólan í dreifingu um heiminn og kom til Íslands líka, við fengum nokkur tilfelli.

Þannig að þetta getur gerst, getur auðvitað komið til okkar, fólk er á ferð og flugi og ef þetta fer að breiðast til annarra landa, sérstaklega landanna nær okkur, þá eru auðvitað líkurnar meiri,“ segir hún.

Guðrún bendir á að veiran í faraldrinum árið 2022 hafi ekki dáið út heldur hafi smitunum fækkað mikið alls staðar.

„Eins og hjá okkur, við fengum bara eitt tilfelli í fyrra en lönd sem eru auðvitað með fleira fólk fengu fleiri tilfelli, en mun færri en voru 2022.

En ef þessi stofn fer í dreifingu og á sambærilegan máta, með svona hegðun, að þá hefur maður auðvitað áhyggjur af því,“ segir hún.

Bóluefni til staðar fyrir viðkvæma hópa

Guðrún segir að hægt að koma í veg fyrir veiruna með bóluefni, en það sé ekki mælt með að bólusetja almenning þar sem áhættan er ekki talin mikil.

„Það er hægt að koma í veg fyrir veiruna með bóluefni, það er líka hægt að gefa bóluefni í kringum veikindi og bóluefnið er gott og þetta er öruggt bóluefni, en það er ekki mælt með því almennt, því það er ekki talið að almenningur sé í hættu, það myndi ekki borga sig að vera að bólusetja alla,“ segir hún.

Hún bætir við að bóluefnið sé ráðlagt fyrir ákveðna hópa og það hafi ekki breyst, þrátt fyrir nýjustu upplýsingar.

„Við erum ekki að fara í sérstakt átak vegna þess, við eigum bóluefni. Göngudeildin sem sér um þetta fyrir okkur er vel meðvituð.“

Guðrún segir einnig að í sumar hafi verið rætt við lækna um fleiri tilfelli í tengslum við hátíðir og aðra atburði, líkt og gerðist árið 2022, en það hafi ekki orðið.

„Vonandi er fólk bara ennþá meðvitað, við munum auðvitað skerpa á því í tilefni þess að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst þessu yfir núna,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert