„BDSM-fólk á börn eins og annað fólk“

Úr gleðigöngunni 2019.
Úr gleðigöngunni 2019. mbl.is/Snorri

Formaður BDSM Ísland segir félagið eflaust hafa mátt ræða það betur fyrir fram hvort leyfa ætti ungum dreng að sitja í broddi fylkingar þeirra í Gleðigöngunni síðustu helgi. Hún hafi þó ekki miklar áhyggjur af þátttöku hans og áréttar að ekkert kynferðislegt hafi verið við atriðið.

„Fyrir það fyrsta er náttúrlega mikilvægt að fólki sé ljóst að BDSM-fólk á börn eins og annað fólk,“ segir Margrét Nilsdóttir innt eftir svörum um þátttöku drengsins í atriði BDSM Íslands.

Félagið gekk í Gleðigöngunni sem fór fram hátíðlega um liðna helgi en sumir ráku upp stór augu er þeir sáu ungan dreng sitja á hestvagni dregnum af tveimur einstaklingum með hestagrímur. 

Margrét segir ástæðu þess að drengurinn hafi verið í fararbroddi ekki flóknari en svo að hann bað um að fá að sitja á hestvagninum að því það væri skemmtilegra. Hann hafi þegar ætlað að taka þátt í göngunni fótgangandi með foreldrum sínum líkt og hann hefur gert árin á undan.

Drengurinn bað sjálfur um að fá að sitja í hestvagninum.
Drengurinn bað sjálfur um að fá að sitja í hestvagninum. Ljósmynd/Aðsend

Engar áhyggjur af drengnum

„Það var ekki ákveðið fyrir fram að hann yrði partur af einhverju atriði, heldur var þetta hans eigin ósk. Hann sér ekkert að þessu, við erum bara fólk að leika okkur. Við erum í hestabúningum og börnum finnst það ekkert óeðlilegt. Það eru ekki þau sem eru að hneykslast á okkur,“ segir Margrét.

Innt eftir því hvort hún skilji að sumum gæti þótt óviðeigandi að sjá barn í göngunni í ljósi þess að þau hafi ekki endilega aldur eða þroska til að veita upplýst samþykki fyrir slíku svarar Margrét játandi.

„Já algjörlega. Það eru heldur engin börn í félaginu við erum alveg skýr á því að við tökum engan inn í félagið okkar fyrir 18 ára aldur. Það er kannski aðallega að því við vitum hvað þetta hefur mikla kynferðislega tengingu fyrir fólki,“ segir Margrét. 

„Kannski hefðum við átt að sleppa því ég veit það ekki, en ég hef engar áhyggjur af honum og hans velferð.“

Margrét Nilsdóttir, formaður BDSM á Íslandi.
Margrét Nilsdóttir, formaður BDSM á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfkrafa sett í kynferðislegt samhengi

Aðspurð segir hún það alveg koma til greina að taka það til umræðu innan félagsins hvort börn eigi að ganga með í Gleðigöngunni. Hún bætir þó við að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem barn gangi með og að engar athugasemdir hafi verið gerðar við það hingað til.

„En eins og ég segi það er engin óviðeigandi eða kynferðisleg hegðun í gangi í göngunni við erum innan um almenning og okkur myndi ekki detta það í hug. Fólk setur okkur bara sjálfkrafa í kynferðislegt samhengi.“

Hún segir frekar gæta á fordómum hjá fullorðnum sem tengi BDSM alfarið við kynferðislegar athafnir. Börnum þyki almennt ekkert athugavert við atriði félagsins og hrósi yfirleitt bara búningunum félagsmanna. 

Atriði BDSM Íslands hafi ávallt verið á léttum nótum og að félagsmenn hafi lagt sig fram við að reyna að gera það létt, skemmtilegt og litríkt þrátt fyrir að flestir kjósi að klæðast svörtu leðri. 

„Það skal alveg koma fram hér að það voru mörg stressuð að ganga með okkur,“ segir Margrét. „En þessi ungi maður var óhræddur,“ bætir hún við og hlær. 

Ekki að reyna að troða þessu upp á fólk

Hún segir það einnig stóran misskilning að BDSM-hneigð snúist einungis um kynferðislegar athafnir. Kynlíf sé vissulega partur af lífi BDSM-hneigðra rétt eins og kynlíf er partur af lífi fólks. Sumir geti einfaldlega einungis myndað rómantískar og/eða kynferðislegar tengingar séu eða fundið fyrir nánd séu þessi atriði til staðar. 

Hún fagni auknum sýnileika á undanförnum árum eftir að félagið varð hagsmunafélag Samtakana '78 árið 2016. Aðild félagsins var mikið hitamál á sínum tíma klauf samtökin þar sem sumir félagsmenn vildu ekki fallast á að BDSM væri hneigð frekar en blæti.

Síðan þá hefur mikil vitundarvakning átt sér stað að sögn Margrétar og segir hún að henni þyki vænt um þegar fólk utan BDSM-samfélagsins taki upp hanskann fyrir þau eða leiðrétti algenga misskilninga. Sýnileiki þeirra felist fyrst og fremst í að uppræta fordóma og grín í þeirra garð.

„Við erum ekki að reyna að troða þessu upp á fólk en við viljum heldur ekki að það sé talað um okkur, bakvið okkur af mikilli vanþekkingu. Við getum ekki setið undir því að umræða um okkur sé án okkar.“ 

Vernda börn sín rétt eins og aðrir foreldrar

Spurð að því hvernig BDSM-hneigðir foreldrar tækli það að fræða börn sín um viðfangsefnið, sem sé erfitt að skilja ungur að aldri, segir Margrét það eflaust misjafnt eftir fjölskyldum. Flestir taki þó þroskasamsvarandi samtal rétt eins og aðrir foreldrar geri með sínum börnum.

Fyrst og fremst taki BDSM fólk samþykkissamtöl snemma og útskýra að í raun sé flest allt í lagi svo lengi sem báðir aðilar séu því samþykkir. Það sé alla jafna meira áhyggjuefni að ungmenni fari yfir mörkin sín í kynlífi eða hermi eftir klámi sem sýni athæfi sem falli undir hatt BDSM, eins og hálstök, án fræðslu um öryggi og samþykki.

„Við verndum auðvitað börnin okkar eftir bestu getu bara eins og aðrir foreldrar. Við pössum að þau sjái ekkert sem við dæmum óviðeigandi. Við förum bara eftir okkar innsæi eins og aðrir,“ segir Margrét. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert