Engin mengun í vatnsbólinu

Rjúpnavellir eru í Rangárþingi ytra.
Rjúpnavellir eru í Rangárþingi ytra. mbl.is/Sigurður Bogi

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er enn með til rannsóknar mögulega hópsýkingu af völdum E.coli bakteríunnar sem kom upp á Rjúpnavöllum í Rangárþingi ytra nýlega.

Að sögn Sigrúnar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, er heilsugæslan að hringja í sjúklinga til fá úr þeim sýni en á annan tug manna sem gistu á Rjúpnavöllum veiktust.

„Sýnatakan er í gangi af þeim sem veiktust og við bíðum eftir niðurstöðu úr henni. Við erum komin með niðurstöðu úr annarri greiningu á vatnsýnunum og það kom í ljós að það mældist ekki E.coli í vatnsbólinu heldur bara í lagnakerfinu á tveimur stöðum og ekki í öllum húsunum,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is.

Sigrún segir að um litla mengun sé að ræða og hún segir það góðar fréttir að ekki hafi mælst E.coli í vatnsbólinu. Hún segist ekki hafa nákvæma tölu yfir fjölda þeirra sem veiktust. Það sé sóttvarnalæknir sem haldi utan um það en ljóst sé að þeir séu fleiri en tíu sem veiktust.

Sigrún áætlar að niðurstöður úr sýnatöku á fólkinu liggi fyrir eftir helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert