Búið er að fjarlægja krossinn úr merki Kirkjugarða Reykjavíkur og þá hafa komið upp hugmyndir um að hætta nota orðið kirkjugarður og tala frekar um að minningarreiti. Tveir þingmenn hafa gagnrýnt breytinguna.
„Orðið er til dæmis bara eitt. Kirkjugarður. Á þetta að heita kirkjugarður? Á þetta að heita minningarreitur? Grafreitur? Eða hvað á barnið að heita í rauninni?“ sagði Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Reykjavíkur, í samtali við Ríkisútvarpið sem greindi frá málinu.
Fram kom að ekki hafi verið ákveðið að hætta að nota orðið kirkjugarður, að sinni. Þó er búið að fjarlægja krossinn úr merki Kirkjugarða Reykjavíkur og setja þess í stað lauf.
Á vefsíðu Árnastofnunar segir um orðið kirkjugarður:
„Vígður garður þar sem látið fólk er jarðsett, oft með blómum og trjám við grafreitina.“
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafa báðir tjáð sig um málið á Facebook.
„Nú er sótt að kirkjugörðum landsins. Helgum kristnum grafreitum þjóðarinnar í þúsund ár. Krossinn skal víkja úr merki Kirkjugarða Reykjavíkur, segir framkvæmdastjórinn í stórundarlegu viðtali á Rúv.
Í staðinn skal setja laufblað, sem minnir þá helst á garðyrkjustöð. Verður það næst þjóðsöngurinn?“ skrifar Birgir á Facebook.
Sigmundur birti færslu á Facebook þar sem hann sagði Kirkjugarða Reykjavíkur vera orðna hrædda við krossinn.
„Auðvitað voru ekki allir sem jarðaðir eru í kirkjugörðum kristnir og sumir kjósa að vera grafnir annars staðar og vissulega er allt í lagi með það. En hvers vegna er allt að leysast upp í einhverja vitleysu þessa dagana?“ skrifar Sigmundur.
Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, sagði í samtali við Ríkisútvarpið að það þyrfti að ganga enn þá lengra. Hún vill láta skipa nýja stjórn í Kirkjugarða Reykjavíkur sem standi alfarið utan trúfélaga.
„Þetta er ekki trúarlega hlutlaus sjálfseignarstofnun á nokkurn máta,“ sagði hún við Ríkisútvarpið.