„Stjórnandinn á að sjá til þess að þessi mál séu í lagi. Ábyrgðin er hans. Allir stjórnendur í opinberum stöðum verða að sjá til þess að þeirra eigin orlofstaka sé með eðlilegum hætti þannig að jafnræðis sé gætt fyrir alla.“
Þetta segir Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis um tæplega tíu milljóna króna orlofsgreiðslu til Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra.
Greint var frá því Morgunblaðinu í dag að auk biðlauna fái Dagur 9,7 milljónir króna í orlofsuppgjör vegna síðustu tíu ára.
Þórarinn segir að í kjarasamningunum þar sem vinnuvikuna var stytt niður í 36 stundir hafi verið litið til opinberra starfsmanna sem áttu gríðarlega mikið af uppsöfnuðu orlofi.
„Það var vilji atvinnurekenda ná utan um að ekki væri hömlulaus uppsöfnun sem erfitt væri að höndla með inn í framtíðina. Markmið stéttarfélaganna er að fólk fái eðlilega hvíld og endurnæringu og í það eigi að nota orlofsréttindin. Í stærstum dráttum gerast hlutirnir þannig. Það getur þó komið fyrir í sumum aðstæðum, eins og fæðingarorlofi og veikindum, að flytja þurfi orlofsréttinn. Einnig getur komið upp staða inni á stofnunum þar sem mannekla er, að fólk fær ekki tækifæri til að nýta sér orlofsréttinn að fullu. Þá er stefnan sú að fólk geti skipulagt sig inn í framtíðina og allt er það skipulag á ábyrgð stjórnenda,“ segir Þórarinn.
Þórarinn segir að upp hafi komið tilvik að atvinnurekendur margir hverjir hafi þrýst á að starfsmenn taki orlofið sitt. Það hafi ekki alltaf verið hægt og þá sé það túlkun stéttarfélagsins að orlofsréttur sé eign og ef ekki sé hægt að hleypa fólki í orlof þurfi að gera það upp í greiðslu eins og gert sé við starfslok.
„Um þetta hefur staðið styr og í kröftugu samtali við launagreiðendur höfum við sagt að ekki sé hægt að fyrna orlof án þess að greiðsla komi til. Það sem er óvenjulegt í þessu máli er tímabilið. Þetta er lengri tími en við höfum séð hjá okkar félagsfólki en þetta gefur tóninn og er viðurkennt að ótekið orlof til lengri tíma sé gert upp með peningagreiðslu,“ segir Þórarinn.
„Það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir að taka orlofs og skipulag vinnunnar er á ábyrgð stjórnenda og við höfum alltaf haldið því fram að ef ekki er verið að taka orlof með eðlilegum hætti þá er það á ábyrgð stjórnenda.”
Þórarinn segir að aldrei sé hægt að taka þessa eign hvort sem hún í formi orlofstöku eða fjármuna af fólki.
„Nú er komið gott fordæmi um það, sem við munum halda á lofti. Við köllum eftir því að jafnréttis sé gætt gagnvart öllum launþegum, ekki bara sumum,“ segir Þórarinn.