Húðin flett­ist af frá ökkla upp að hné

Atvikið gerðist eftir kvöldvakt.
Atvikið gerðist eftir kvöldvakt. mbl.is/Sigurður Bogi

Starfsmaður Alcoa Fjarðaráls á Reyðarfirði er alvarlega slasaður eftir að hafa lent undir afturdekki starfsmannarútu.

Atvikið varð á miðvikudag í síðustu viku. Rúv greindi fyrst frá. 

Sigrún Erla Ólafsdóttir var á leið heim úr vinnu eftir kvöldvakt með rútu sem skutlaði starfsmönnum til Egilsstaða. Er hún var að fara úr rútunni lokaðist hurðin á hana, hún datt út úr rútunni og afturdekk rútunnar fóru yfir fætur hennar.

„Mamma brotnaði á báðum fótum og húðin á vinstri fætinum flettist af frá ökkla og upp að hné einnig urðu skemmdir á vöðvum,“ skrifar sonur hennar í færslu á Facebook, en hann veitti mbl.is góðfúslegt leyfi til að vitna í færsluna.

Sýkingarhætta í fætinum

Sigrún var flutt með sjúkraflugi til Akureyrar og er búin að gangast undir eina aðgerð á vinstri fæti. Þó að brotin á fótunum líti ágætlega út þá eru það sárin eftir að húðin rifnaði sem eru stóra verkefnið.

„Það er sýkingarhætta í fætinum og er enn möguleiki á því að hún missi fótinn. Læknirinn opnaði umbúðirnar á fætinum í morgun og sagði að fóturinn liti ágætlega út,“ skrifar sonur hennar.

Drep er farið að myndast í húðinni og mun hún þurfa að gangast undir aðra aðgerð á morgun til að fjarlægja það.

„Mamma mun liggja næstu daga inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri, við vitum ekkert með framhaldið en tíminn verður bara að leiða það í ljós,“ skrifar sonurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert