Yfir norðanverðu landinu er nú alldjúp og hægfara lægð, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
„Henni fylgir vestlæg átt, kaldi eða stinningskaldi og rigning víða um land, en það dregur úr vætu norðvestantil þegar líður á daginn,“ segir í hugleiðingunum.
Hægari vindur og þurrt að kalla verður á Norðaustur- og Austurlandi fram eftir morgni. Síðdegis er útlit fyrir öflugar skúradembur á þeim slóðum.
Hiti á bilinu 8 til 15 stig, hlýjast á norðaustanverðu landinu.
Á morgun er spáð norðan og norðvestan golu eða kalda, súld eða dálítil rigning.
„Það léttir þó smám saman til á sunnanverðu landinu, víða bjart þar eftir hádegi en líkur á stöku síðdegisskúrum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
„Hiti frá 7 stigum við norðurströndina, upp í 16 stig sunnanlands.“
Spáð er áframhaldandi norðan- og norðvestanátt um helgina. Vætusamt og kalt veður um landið norðanvert, „en bjartara sunnan heiða og mildara yfir daginn þó búast megi við einhverjum skúrum.“