Óttast að loðin svör séu vísbending

Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra hefur verið gagnrýndur mjög …
Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra hefur verið gagnrýndur mjög fyrir svaraleysi og óljós áform. Ekkert innlent heildstætt mat hefur verið gert á hæfni íslenskra grunnskólabarna frá árinu 2019. Á sama tíma hefur frammistaða þeirra hrunið í alþjóðlegum samanburði. Samsett mynd

Tveir prófessorar og dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands óttast að loðin svör stjórnvalda um tilgang og hlutverk fyrirhugaðs nýs námsmats geti verið vísbending um að stjórnvöld séu á villigötum um hvernig útfæra eigi námsmatið.

Þetta kemur fram í umsögn Freyju Hreinsdóttur, prófessors í stærðfræði og stærðfræðimenntun, Hauks Arasonar, dósents í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun, og Meyvants Þórólfssonar, prófessors emerituss í námskrárfræði, námsmati og náms- og kennslufræði, við breytingaráform barna- og menntamálaráðherra á lögum um grunnskóla.

Með breytingunum vill ráðherrann Ásmundur Einar Daðason leggja samræmdu könnunarprófin af fyrir fullt og allt.

Þau hafa ekki verið lögð fyrir undanfarin ár eftir að ráðherrann gafst upp á því og fékk lagabreytingartillögu þess efnis samþykkta á Alþingi.

Mikil gagnrýni og hávær umræða

Afnám prófanna hefur verið gagnrýnt mjög og sömuleiðis sú óvissa sem ríkir um það sem við á að taka, auk þess hversu lang­ur tími muni líða án þess að fram fari heild­stætt sam­ræmt mat á getu ís­lenskra grunn­skóla­barna.

Í stað prófanna á að koma nýtt námsmat, svokallaður matsferill.

Aðeins lítill hluti þess er tilbúinn og ekki lítur út fyrir að námsmatið verði fullbúið á næstu árum eins og ítrekað hefur komið fram í ítarlegri umfjöllun mbl.is og Morgunblaðsins í sumar.

Umfjöllun sem hrundið hefur af stað háværri umræðu um menntamál í samfélaginu.

Öllu varpað fyrir róða

Í umsögninni segja þau áform ráðherrans róttæk og að með fyrirhuguðum breytingum hans muni falla brott allt miðlægt, samræmt mat á námi og kennslu og um leið allt eftirlit með stöðu og árangri skólastarfs í landinu.

„Hlutverk sérfræðinga, sem samkvæmt 39. gr. grunnskólaga hafa umsjón með „framkvæmd samræmds námsmats, prófa og rannsókna á skyldunámi“ eins og það er orðað í lagagreininni, virðist þar með eiga að falla niður,“ skrifa þau.

Benda þau á að á 10. áratug síðustu aldar hafi tveir starfshópar skilað vönduðum tillögum um samræmd próf, annar um gildi og tilgang samræmdra lokaprófa og hinn um gildi samræmdra könnunarprófa.

„Tillögurnar fólu í sér fyrirætlanir um faglega útfært miðlægt lokamat og leiðsagnarmat, sem taldist á allan hátt mótandi til batnaðar, enda ætlað að stuðla að jafnrétti til náms. Þó var sá fyrirvari settur að vandlega þyrfti að standa að framkvæmdinni,“ segir í umsögninni.

„Samkvæmt þeim breytingum, sem nú eru boðaðar, verður öllu þessu hér með varpað fyrir róða.“

Frá kynningu á niðurstöðum síðustu PISA-könnunar í desember síðastliðnum. Ásmundur …
Frá kynningu á niðurstöðum síðustu PISA-könnunar í desember síðastliðnum. Ásmundur Einar Daðason hefur verið ráðherra málaflokksins frá árinu 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gallar prófanna frekar vegna fjárskorts

Þau taka fram að vandasamt sé að skipuleggja og framkvæma slík próf, hvort sem þau hafi þann tilgang að meta námsárangur við lok námstíma, þ.e. sem lokapróf, eða að styðja við nám og kennslu, þá í formi leiðsagnar- eða könnunarprófa, eða þegar þetta tvennt er samtvinnað.

„Bæði samræmd lokapróf og samræmd könnunarpróf hafa sína kosti og galla. En þegar betur er að gáð reynast gallarnir fremur tæknilegs eðlis og tengdir vandamálum við framkvæmd m.a. vegna fjárskorts, heldur en gildi og gagnsemi sjálfra prófanna,“ skrifa þau.

„Tæki sem við verðum að hafa“

Í þessu sambandi er meðal annars vísað til þess sem Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í viðtali í Morgunblaðinu 1. ágúst.

Lýsti hann þar áhyggjum sínum af því að á landinu væri ekkert samræmt innlent mat á hæfni íslenskra grunnskóla:

„Það er mjög leiðinlegt að það verður þetta rof og að það verði vegna þess að samræmdu prófin eru lögð niður út frá tæknivanda,“ sagði Magnús og einnig:

„Sam­ræmd­ar mæl­ing­ar sem nýt­ast skól­un­um eru bara tæki sem við þurf­um að hafa. Það er sárt að segja en við stönd­um bara verr með það á Íslandi held­ur en marg­ar ná­grannaþjóðir okk­ar að geta rýnt inn í skól­ana okk­ar og séð hvernig við náum meiri ár­angri á ólík­um sviðum.“

„Við óttumst að þessi loðnu svör um þróun, tilgang og …
„Við óttumst að þessi loðnu svör um þróun, tilgang og hlutverk Matsferils geti verið vísbending um að stjórnvöld séu á villigötum hvað varðar útfærslu þessa miðlæga matskerfis,“ segir í umsögninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fengu aldrei stuðning eða fjármagn

Í umsögninni er auk þessa bent á að fyrrverandi formaður Menntamálastofnunar, Arnór Guðmundsson, hafi lýst sams konar áhyggjum og ítrekað að ævinlega hafi skort fé og aðstöðu til að framkvæma miðlægt, samræmt mat með viðunandi hætti.

„Það var alltaf ljóst að við gerðum þetta bara með ein­hverju bráðabirgðakerfi til þess að byrja með. Síðan var talað um að við þyrft­um að fara í útboð á al­menni­legu kerfi, kaupa fullþróað prófa­kerfi. Það kom aldrei stuðning­ur eða fjár­magn til þess,“ sagði Arnór í samtali við Morgunblaðið 27. júlí.

Lagði hann áherslu á að það hefði verið ákvörðun ráðuneyt­is­ins að fresta fyr­ir­lagn­ingu sam­ræmdu próf­anna, sem hafa ekki verið lögð fyrir síðan þá eins og áður sagði.

Spurður út í gagnrýni fyrrverandi forstjórans til sjö ára kvaðst ráðherra ekki myndu tjá sig um málefni einstakra starfsmanna.

Rýna hefði þurft betur í heildarsamhengið

„Klúður við fyrirlagningu samræmdra könnunarprófa árið 2021 hefur margsinnis verið rifjað upp og rætt, en við teljum að þörf hefði verið á að rýna betur í heildarsamhengið,“ segja þremenningarnir og halda áfram:

„Hvernig stendur á því að við „sitjum uppi með það að láta heilt kerfi, sem hafði gengið vel í tíu til tólf ár, hrynja með þeim hætti sem raun ber vitni“ svo enn sé vitnað í orð formanns Kennarasambands Íslands.“

Rifja þau upp að frá árinu 2021 hafi ekkert samræmt mat á námsstöðu eða námsárangri verið í boði á grunnskólastigi, og fullyrða að ekki séu horfur á að það breytist á næstunni.

„Árið 2022 var tilkynnt að Matsferill væri í fullri þróun og samræmd könnunarpróf yrðu því ekki lögð fyrir; þeim yrði frestað út árið 2024 á meðan unnið væri að hinu breytta matskerfi. Matsferill var kynntur í samráðsgátt stjórnvalda í mars árið 2023 sem nýtt kerfi tilbúið til notkunar í janúar árið 2025.“

Nú sé þó ljóst að nýja námsmatskerfið muni dragast að minnsta kosti út árið 2026 og líklega lengur miðað við svör ráðherra og forstjóra Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.

„Það er mjög leiðinlegt að það verður þetta rof og …
„Það er mjög leiðinlegt að það verður þetta rof og að það verði vegna þess að samræmdu prófin eru lögð niður út frá tæknivanda,“ sagði formaður KÍ um samræmdu könnunarprófin, sem ráðherra gafst upp á að leggja fyrir nemendur. mbl.is/Hari

Margsaga skólayfirvöld

Þá benda þau á að ráðherra hafi lýst matsferlinum sem gagnvirku og valkvæðu verkfæri fyrir kennara og nemendur.

Forstjóri Miðstöðvar menntunar og þjónustu hafi aftur á móti sagt að lagt yrði í hendur skólastjórnenda, sveitarfélaga og jafnvel ráðherra að ákveða hvort og þá hvaða próf nemendur yrðu skyldaðir til að taka.

Þetta misræmi hefur áður verið til umfjöllunar á mbl.is, auk þess sem fjallað hefur verið um annað innra misræmi skólayfirvalda.

„Við óttumst að þessi loðnu svör um þróun, tilgang og hlutverk Matsferils geti verið vísbending um að stjórnvöld séu á villigötum hvað varðar útfærslu þessa miðlæga matskerfis,“ segir í umsögninni.

Knýjandi spurningar

Bent er á að vísbendingar um þessar villigötur hafi komið fram um þetta hér og þar. Því verði að svara knýjandi spurningum:

  • Hvað verður metið?
  • Hvernig mun matið fara fram?
  • Hverjir munu móta það og skipuleggja, t.d. í íslensku, stærðfræði eða náttúruvísindum?
  • Hvernig verða niðurstöður nýttar og fyrir hvern?
  • Við höfum fjölmörg dæmi um metnaðarfulla nemendur sem fýsir að vita stöðu sína t.d. í stærðfræði gagnvart jafnöldrum sínum á landsvísu. Munu þeir fá óskir sínar uppfylltar? 

Þessi umsögn er raunar ekki sú fyrsta úr ranni þremenninganna. Fyrri umsögn þeirra barst þann 19. júlí.

„Alkunna er að íslenskt skólakerfi sendur mjög höllum fæti og einnig að fyrirkomulag námsmats hefur lykilhlutverki að gegna í virkni menntakerfisins. Hér er því um afdrifaríkar ákvarðanir að ræða sem munu hafa veruleg áhrif á menntun íslenskra ungmenna næstu árin,“ sögðu þau meðal annars í þeirri umsögn.

Stysti mögulegi umsagnarfrestur

Enn fremur gagnrýndu þau þann um­sagn­ar­frest­ sem gefinn hafði verið, en hann var sá stysti mögulegi samkvæmt reglum samráðsgáttar stjórnvalda.

Fóru þau fram á að fresturinn yrði lengdur og bentu á að hann lenti á miðju sum­ar­leyf­is­tíma­bili ýmissa lykilstofnana í menntakerfinu sem gætu haft sitt um málið að segja.

Ráðuneytið brást við þeim hluta gagnrýninnar og lengdi umsagnarfrestinn.

Einkunnaverðbólga raunverulega átt sér stað

Eins og gefur að skilja voru þremenningarnir á meðal þeirra sem nýttu sér framlengdan frest.

Í síðari umsögn sinni, sem hér er til umfjöllunar, benda þau á að í núgildandi aðalnámskrá sé rík áhersla lögð á réttmæti og áreiðanleika við námsmat.

„Eftir að námskráin tók gildi hefur einkunnaverðbólga sannanlega átt sér stað og því erfitt að taka mark á lokaeinkunnum úr skyldunámi. Menn hafa reynt að skýra þessa þróun með ýmsum hætti og jafnvel réttlætt hana með því að um sé að ræða víðtækara mat á hæfni en áður og fjölbreyttum hæfileikum nemenda.“

Kunna þau þar að vísa til þess sem fram kom í viðtali við áðurnefndan Magnús Þór Jónsson, formann KÍ.

„Að hluta til held ég að ein­kunna­verðbólg­an, ef hún er, sé kannski bara vegna þess að okk­ur hef­ur tek­ist með breyt­ing­um á mennta­kerf­inu að fanga það sem við vild­um: Að fleiri ein­stak­ling­ar fengju nám við sitt hæfi,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið.

„Sem þýðir í raun það að þínir hæfi­leik­ar, sem voru kannski lítið metn­ir á bók­lega sam­ræmda próf­inu, geta komið vel út þegar þeir eru metn­ir á ann­an veg. Það hef­ur orðið mik­il breyt­ing á hug­ar­fari nem­enda og for­eldra til náms á síðustu þrjá­tíu árum, þýðir þá að fleiri ná betri ein­kunn­um. Þetta á við um bæði grunn- og fram­halds­skól­ana.“

Nú sýn­ir PISA fram á öf­uga þróun. Er PISA þá að mæla eitt­hvað allt annað á sama tíma?

„Það er ein af þess­um óút­skýrðu spurn­ing­um sem við verðum að svara. Það kom okk­ur á óvart að lesskiln­ing­ur­inn færi svona illa og við höf­um rætt það.“

Börn úr ákveðnum grunnskólum standa sig betur á könnunarprófi Verzlunarskólans, …
Börn úr ákveðnum grunnskólum standa sig betur á könnunarprófi Verzlunarskólans, þrátt fyrir að hafa fengið sömu einkunnir og nemendur úr öðrum skólum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Staðreynd sögð orðrómur

Þess ber að geta að sýnt hefur verið fram á umrædda einkunnaverðbólgu í lokaeinkunnum grunnskóla. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt fram á að hennar gæti meira á höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðinni.

Formaður félags skólastjóra framhaldsskóla sagði samt sem áður í samtali við mbl.is að einfaldlega væri um orðróm að ræða. Bar hún fyrir sig að engin gögn væru til.

„Við eig­um eng­in gögn um það, þannig að það er þá bara alltaf orðróm­ur, ég hef sjálf per­sónu­lega ekki reynslu af því að það sé ein­hver mun­ur á. Ég hef ekki séð þenn­an mikla mun á nem­end­um eft­ir því úr hvaða grunn­skóla þeir koma, ekki ef þeir eru með svipaða ein­kunn,“ sagði formaðurinn Helga Krist­ín Kolbeins, spurð hvort hún hefði orðið vör við ósam­ræmi í ein­kunna­gjöf.

Gert ráð fyrir heiðarlegu og áreiðanlegu námsmati

Þremenningarnir halda áfram:

„En eftir stendur samt sá vandi að námskráin gerir ráð fyrir heiðarlegu námsmati, réttmætu og áreiðanlegu, og einkunnum sem hafa tiltekin viðmið. Ef umrædd verðbólga heldur áfram fellur það allt um sjálft sig.“

Loks segja þau úrlausnarefnin mörg, sem yfirvöld menntamála þurfi að svara, og tiltaka sérstaklega eftirfarandi:

  • Margir spyrja hvort grundvöllur hugmyndanna um einstaklingsmiðað nám og skóla án aðgreiningar sé hugsanlega ekki lengur til staðar, sbr. nýlegt viðtal við Hjálmar Árnason fyrrverandi skólameistara.
  • Fjöldi barna og unglinga með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn fer vaxandi. Hafa stjórnvöld gert ráðstafanir til að mæta þessum vanda og til að styðja starfsmenn skóla, sér í lagi kennara og stjórnendur? Hugmyndir um svonefnda inngildandi menntun hafa verið kynntar, sæmilega skýr áform í orði, en hvernig verða þær á borði í samfélagi sem ákvað á sínum tíma að flytja ábyrgð og rekstur grunnskóla til sveitarfélaganna, sveitarfélaga sem mörg standa illa fjárhagslega?
  • Mönnum er tíðrætt um ábyrgð kennara og stjórnenda skóla, þeir séu sérfræðingarnir sem sé best treystandi fyrir skipulagi náms og kennslu og námsmati. Hvernig fara slíkar hugmyndir saman við vaxandi skort á fagmenntuðum starfsmönnum skóla, hlutfall ófaglærðs starfsfólks fer stækkandi í íslensku skólakerfi?
  • Heiðarlega framkvæmt námsmat gefur hverjum nemanda sem þess óskar tækifæri til að fá sig metinn í samanburði við aðra nemendur landsins. Þá er verið að tala um samanburð sem kennarar nemandans eða skóli koma ekki að. Er það ekki í raun sanngjarnt? Er það ekki jafnréttismál? Er það ekki vörn gegn einkunnaverðbólgu? Er það ekki vörn gegn „frændhygli og klíkuskap“ sem menn hafa meðal annars haft áhyggjur af?
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert