Uppbyggingu vindorkuvera þarf að vinna í samstarfi við sveitarfélögin á áhrifasvæði þeirra en ekki einungis þar sem vindmyllurnar fara ofan í jörðu. Forsenda frekari orkuvinnslu er að klára stefnumörkun í samvinnu við sveitarfélög og leiða í lög nýja skattalega umgjörð sem tryggi nærumhverfinu efnahagslegan ávinning svo þau geti geti vaxið til framtíðar á forsendum verðmætasköpunar og lífsgæða.
Svo segir í tilkynningu sem sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur sent frá sér.
Tilefnið er útgáfa virkjunarleyfis fyrir Búrfellslund sem Landsvirkjun var veitt og Orkustofnun gaf út sl. mánudag.
Í Morgunblaðinu í gær sagði Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps að sveitarstjórnin væri með til skoðunar að kæra útgáfu leyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og verður ákvörðun þar um tekin á næstu vikum.
Fram kemur að forsendan fyrir staðsetningu Búrfellslundar séu innviðir raforkukerfisins í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, en í umhverfismati Búrfellslundar komi fram að framkvæmda- og áhrifasvæði Búrfellslundar sé í báðum sveitarfélögum, þ.e. í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra.
Þrátt fyrir það hafi ekki verið sótt um að setja Búrfellslund í skipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps, þótt óumdeilt sé að áhrifasvæði Búrfellslundar sé í hreppnum, á hálendinu við hliðina á þjóðlendunni í Þjórsárdal þar sem mikil uppbygging í ferðaþjónustu eigi sér nú stað.
Sveitarstjórnin gagnrýnir stjórnvöld fyrir hafa ekki lokið stefnumörkun um uppbyggingu vindorkuvera, sem og að hafa ekki sett lagaumgjörð utan um komandi uppbyggingu vindorkuvera.
Þá hafi stjórnvöld ekki lagt fram breytingar á skattaumgjörð orkuvinnslu eins og boðað hafi verið af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar.
Bent er á að sveitarstjórn Rangárþings ytra – en Búrfellslundur verður í sveitarfélaginu – standi frammi fyrir því að veiti hún framkvæmdaleyfi fyrir vindorkugarðinum verði sveitarfélagið fyrir beinu fjárhagslegu tjóni, þar sem tekjur af fasteignagjöldum orkuversins leiði til skerðingar á framlögum jöfnunarsjóðs.
Skerðingin nemi hærri upphæð en væntar tekjur sveitarfélagsins af Búrfellslundi. Það skýrist af því að um 95% af orkumannvirkjum séu undanþegin greiðslu fasteignagjalda sem leiði til þess að sveitarfélög tapi á orkumannvirkjum svo milljónum skipti.
Vakin er athygli á því að þess sé skammt að bíða að Orkustofnun veiti virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Sama muni gerast með þeirri framkvæmd hjá Rangárþingi ytra.
Auknar tekjur af fasteignagjöldum Hvammsvirkjunar til Rangárþings ytra muni auka skerðingar frá jöfnunarsjóði og tap Rangárþings ytra vaxa enn frekar þar með.
„Sveitarfélögin á áhrifasvæði Búrfellslundar, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Rangárþing ytra og Ásahreppur, munu sitja uppi með öll neikvæðu umhverfisáhrifin af Búrfellslundi. Nærsamfélagið í sveitarfélögunum situr uppi með fjárhagslega tapið.
Á rekstrartíma Búrfellslundar verða erlendir sérfræðingar sem munu reka Búrfellslund og mun hann því ekki skila neinum staðbundnum störfum í nærumhverfinu og þar af leiðandi engum útsvarstekjum í nærumhverfið.
Öll orkan sem Búrfellslundur framleiðir verður flutt út af svæðinu og því mun ávinningurinn aðeins skila sér til þeirra sem nota orkuna,“ segir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps.