„Það eru langflestir náttúrulega í léttu sjokki yfir þessu, þessum ótrúlegu aðferðum,“ segir Sigurjón Jónsson, prófessor við King Abdulla-háskólann, sem tók á þriðjudag upp drónamyndband af Saltvíkurbrekkum sunnan við Húsavík þar sem nýr skógur á að rísa.
Segir Sigurjón í samtali við mbl.is að skiptar skoðanir séu á skógræktinni fyrir norðan og að drónamyndbandið sýni hversu víðfeðmar aðgerðirnar eru.
„Ég kalla þetta náttúru- og umhverfisspjöll en skógræktarmenn kalla þetta nauðsynlega jarðvinnu,“ segir Sigurjón.
Morgunblaðið fjallaði ítarlega um fyrirhugaða skógrækt fyrr í sumar.
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti í janúar tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs um að úthluta fyrirtækinu Yggdrasli Carbon landi til skógræktar fyrir ofan Saltvík. Hófst það ferli í júlí að gróðursetja rúmlega 290 þúsund tré og vakti málið þó nokkra athygli.
Eins og sjá má í myndbandi Sigurjóns eru áhrif framkvæmda við fyrirhugaðan skóg mikil á landið.
„Það er náttúrulega alveg ljóst að þarna er verið að raska landi heilmikið,“ segir Sigurjón og bætir við:
„Landi sem að er með fjölbreyttan gróður, lyngróður í mjög vel grónu landi.“
Segir Sigurjón að verið sé að mestu leyti að gróðursetja furutré og lerkitré og þegar þau verði orðin stór verði ekki mikið eftir af lyngmóanum.
„Þarna er verið að breyta notkun landsins algjörlega og breyta ásjónu þess.“
Undirstrikar þó Sigurjón að hann sé hvorki líffræðingur né sérfræðingur í þessum málum. Hann hafi farið með föður sínum á svæðið þar sem hann tók myndbandið og hafi einfaldlega sínar skoðanir.
„Ég hef mínar skoðanir á þessu og þær eru bara að mér finnst að það eigi ekki að planta í mólendi, punktur. Ég held að það eigi að fara í umhverfismat og eigi að vera skipulagsskylt.“
Náttúrustofa Norðausturlands benti á í áliti sínu, þegar sveitarstjórn fjallaði um málið, að skógræktin væri fyrirhuguð í grónu mólendi. Það væri sjaldgæft við Húsavík og því færi betur að koma skógrækt sem þessari fyrir annars staðar. Telur forstöðumaður Náttúrustofu, Þorkell Lindberg Þórarinsson, að ekki hafi verið hlustað á rök þeirra.
Sigurjón kveðst ekki vera á móti skógrækt á afmörkuðum svæðum.
„Mér finnst eins og skógræktin megi náttúrulega fara hvert sem er, en hér er verið að planta í mjög ríkulegt og vel gróið land sem er mjög fjölbreytt líffræðilega og þegar þessar plöntur eru orðnar stórar þá er skógarbotninn meira og minna gróðurlaus og við erum bara með þessar stóru furur hér og þar,“ segir Sigurjón.
„Þetta er alveg ótrúlegt rask en eins og ég segi þá er ég engin sérfræðingur í þessu. Ég sé bara á eftir mjög fallegu landi og berjamó,“ bætir hann við að lokum.