„Skil ekki hvernig hægt er að klúðra þessu svona mikið“

Frá flugstöð Fiumicino-flugvallar í Róm.
Frá flugstöð Fiumicino-flugvallar í Róm. AFP

„Ég skil ekki hvernig hægt er að klúðra þessu svona mikið,“ segir Telma Rós Jónsdóttir í samtali við blaðamann mbl.is um atvikið í Róm þar sem henni, kærastanum hennar og 14 ára dreng var ekki hleypt um borð í flug til Íslands sem þau voru búin að borga fyrir.

Íslendingarnir fengu ekki að fara um borð í flugið heim vegna yfirbókunar og ætlaði flugfélagið Wizz Air sér að senda þau og drenginn á hótel í viku þar til þau gætu farið heim með næsta flugi flugfélagsins til Íslands.

Telma bætir við að starfsfólkið sem þau töluðu við hafi sagt drenginn vera alveg nógu gamlan til þess að fara einn í flug.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Segist ekki hafa vitað að hann væri 14 ára

Arna Ösp Herdísardóttir er móðir 14 ára drengs sem fór til Ítalíu í æfingabúðir en fékk ekki að fara heim í sama flugi og félagar sínir.

Þegar hann mætti á flugvöllinn á laugardaginn segir Arna þau hafa upplýst hann um að hann væri ekki með sæti í fluginu en mætti fara í gegnum innritunina og athuga aftur við hliðið hvort hann fengi sæti.

Honum var alltaf haldið volgum, að hann fengi sæti,“ segir Arna í samtali við mbl.is. Þegar drengurinn hennar kom að hliðinu var honum þó tjáð það sama.

Þjálfari hans benti á að hann væri aðeins 14 ára gamall en þá mun starfsmaðurinn við hliðið hafa borið fyrir sig að þau hefðu ekki verið vör við það. Arna segir það skrítið þar sem aldur hans hafi vissulega komið fram á bókuninni.

Drengurinn og parið hefðu átt að fljúga heim með flugfélaginu …
Drengurinn og parið hefðu átt að fljúga heim með flugfélaginu Wizz Air.

Hefði orðið einn eftir í Róm í viku

Drengnum voru boðnar 250 evrur í bætur og gistingu í viku þangað til næsta flugvél Wizz Air færi til Íslands. Þótti Örnu mjög skrítið að þau hafi ætlað að senda 14 ára barn eitt á hótelherbergi þar sem drengurinn sé varla nógu gamall til þess að löglega bóka það.

Þjálfarinn bauðst til að skipta við hann og hefði hún þá fengið bæturnar en starfsmaðurinn tók fyrir það að hún myndi fá sömu aðstoð við að fá gistingu og drengurinn.

Ungt íslenskt par var í sömu aðstæðum og drengurinn, eins og fram kom hér að ofan, og bauðst þá til þess að passa upp á hann. Arna segist ekki vita hvað hún hefði gert hefði ekki verið fyrir þau og segir þau einnig hafa verið rosalega indæl.

Telma, önnur þeirra sem passaði upp á son Örnu, segir að það hafi ekkert annað komið til greina.

Arna samþykkti þá að sonur hennar yrði eftir fyrst hann væri í fylgd og bætir við að það hefði heldur ekki verið gott ef þjálfarinn hefði þurft að vera eftir, þar sem hópur barna hefði þá þurft að fljúga heim án fararstjóra.

Gerðu enga tilraun til að finna sjálfboðaliða

Telma og kærastinn hennar höfðu reynt að innrita sig í flugið kvöldið áður en þá tókst þeim af einhverjum ástæðum ekki að fá flugmiðana sína. Því mættu þau snemma næsta dag þar sem þau lentu í því sama og drengurinn.

Flugfélagið gerði enga tilraun til að finna sjálfboðaliða sem voru til í að vera lengur í Róm að sögn Telmu.

Parinu og drengnum var lofað aðstoð á þjónustuborði. Þar voru bætur þeirra hækkaðar upp í 400 evrur en þau fengu enga aðstoð við að bóka flug.

Tæmdi bankareikninginn sinn

„Það er ekkert sem við getum bókað,“ segir Telma starfsfólkið hafa tjáð þeim. Hún hafi þá hringt í Icelandair og tæmt bankareikninginn sinn við að bóka flug heim á síðustu stundu.

Arna bókaði sömuleiðis sama flug fyrir son sinn og fóru þau öll þrjú í tengiflug heim sem stoppaði í Danmörku.

Ég var rosalega þakklát fyrir að þau gátu fylgt honum í gegn af því að þó hann hefði kannski alveg ráðið við það að fara einn í tengiflug þá voru aðstæðurnar þannig að hann var sjálfur bara hræddur,“ segir Arna.

Hún hefur nú sent kvörtun á ítölsk flugmálayfirvöld.

„Við þurfum þennan pening“

Arna hefur nú eytt 300.000 krónum í að koma syni sínum heim. Telma eyddi sömuleiðis 350.000 krónum og báðar hafa þær sótt um endurgreiðslu. Eina skiptið sem þau hafa heyrt frá Wizz Air var þegar þau borguðu aðeins kærasta Telmu 400 evra bæturnar. Fyrir utan það hafa þau hvorki náð í þau í síma né tölvupósti.

„Við þurfum þennan pening,“ segir Telma en hún er í námi sem er einnig ástæðan fyrir því að hún hefði ekki getað verið þessa auka viku í Róm.

Arna segist hafa notað samfélagsmiðla til að reyna að ná athygli flugfélagsins en hafi í kjölfarið aðeins fengið einkaskilaboð frá svikahröppum sem hafa þóst verið að vinna hjá Wizz Air til þess að komast yfir reikningsupplýsingar hennar.

„Við erum ekki að fara að fljúga með þeim aftur,“ segir Telma að lokum um flugfélagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert